Opinn fundur borgarstjórnar með ofbeldisvarnarnefnd

Velferð Mannlíf

""
Fyrsti sameiginlegi fundur borgarstjórnar og ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur verður haldinn í dag,  31. maí 2016 í Tjarnarsal, Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundurinn hefst kl. 16.00
Á fundinum munu fulltrúar í ofbeldisvarnarnefnd fjalla um þau skref sem þeim finnst mikilvægast að taka í baráttunni gegn ofbeldi.
 
Hátíðarfundur kvenna í borgarstjórn, sem haldinn var í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna, samþykkti að stofna ofbeldisvarnarnefnd í mars á síðasta ári. Ofbeldisvarnarnefnd er vettvangur samráðs borgarfulltrúa og sérfræðinga á sviði ofbeldisvarna og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins.
 
Nefndinni er ætlað að takast á við ofbeldi í sinni víðustu mynd – öllu ofbeldi alls staðar. Stór hluti kvenna og barna verða fyrir ofbeldi. Talið er að ein af hverjum fimm stelpum verði fyrir ofbeldi, einn af hverjum 10 strákum og þriðjungur kvenna.
 
Ráðið á að vinna tillögur að aðgerðum borgarinnar til að styrkja forvarnarstarf vegna kynbundins ofbeldis og mæta þörfum þolenda. Enn fremur þarf að efla aðstoð og ráðgjöf fyrir gerendur, auk fræðslu um mörk og virðingu.

Fundurinn er samtal að fyrirmynd sameiginlegra funda borgarstjórnar með öldungaráði, fjölmenningarráði og ungmennaráðum sem eiga sér lengsta sögu.

Formaður ofbeldisvarnanefndar, fulltrúi lögreglunnar, fulltrúi Stígamóta, fulltrúi Kvennaathvarfsins og fulltrúi Landlæknis hafa framsögu á fundinum.
 
Dagskrá:
16.00  Fulltrúar í ofbeldisvarnarnefnd fjalla um þau skref sem þeim finnst mikilvægast að taka í baráttunni gegn ofbeldi
17.00 Umræður borgarfulltrúa og spurningar fundargesta
18.00 Fundarlok
 
Fundurinn er öllum opinn en hann verður að þessu sinni í Tjarnarsal Ráðhússins.