Opið hús tónleikastaða

Menning og listir Mannlíf

""

Laugardaginn 1. febrúar  verður opið hús á 10 tónleikastöðum borgarinnar frá kl 13 til 18.  Aðgangur á alla viðburði dagsins er ókeypis. 

Viðburðurinn er liður í Open Club Day er fjölmargir tónleikastaðir víðsvegar um Evrópu opna dyr sínar að degi til fyrir gestum sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemina. Markmiðið með Open Club Day er að vekja athygli á allri þeirri starfsemi sem fer fram á tónleikastöðum, þeim störfum sem þeir skapa og því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna fyrir menningarlíf borga. Open Club Day er verkefni Live DMA með stuðningi frá Creative Europe. Það er Tónlistarborgin Reykjavík sem hefur veg og vanda af skipulagningu dagsins hér í samstarfi við tónleikastaðina.

Tíu tónleikastaðir taka þátt í opna deginum í Reykjavík og bjóða upp á viðburði, vinnustofur, opnar hljóðprufur og leiðsögn um staðina.

Arnar Eggert verður með tónlistarsafarí þar sem hann leiðir fólk um tónleikastaði og segir sögur af þeim. Gangan hans fer frá aðalanddyri Hörpu kl 13 og 15. Einnig verður hægt að taka þátt í fjársjóðsleit þar sem fólk þarf að flakka á milli staða til að svara spurningum og verða veglegir vinningar í boði fyrir þátttakendur. 

Í Kaldalóni í Hörpu verður tónleikaröð fyrir börn í samstarfi við Myrka músíkdaga og í Eldborg verður verkið CAT 192 fyrir stillanlegt hljómburðarkerfi Eldborgar flutt. Í Mengi verða heimasmíðuð hljóðfæri þeirra Hákons Bragasonar og Þorsteins Eyfjörðs sýnd og gestum boðið að prófa og einnig verður hægt að hlýða á hljóðbrot frá ýmsum viðburðum sem hafa farið fram í Mengi frá opnun staðarins fyrir sex árum síðan. Iðnó býður krökkum upp á tónlistar- og upptöksmiðju í Stúdíó Iðnó með þeim Alberti Finnbogasyni og Ásthildi Ákadóttur. Prikið verður með skapandi smiðjur fyrir fjölskyldur auk þess sem plötusnúðar Priksins þeyta skífum frá kl 16. Á Loft Hostel verður tónlistarkonan Rauður með raftónlistarsmiðju fyrir áhugasama og á Röntgen geta gestir leikið á píanó staðarins og látið þannig ljós sitt skína. Hard Rock Café og Gaukurinn bjóða upp á opnar hljóðprufur en á Gauknum mun hljóðmaður útskýra ferlið og svara spurningum gesta. Í bæði Gamla bíó og Iðnó verður leiðsögn um húsakynnin og á Hressó verður tekið á móti gestum auk þess sem DJ Lamp Vader þeytir vínylskífum. Aðgangur á alla viðburði dagsins er ókeypis.