Óperudagar í Reykjavík | Reykjavíkurborg

Óperudagar í Reykjavík

fimmtudagur, 18. október 2018

Óperudagar í Reykjavík er spennandi sönghátíð þar sem boðið er upp á óperusýningar og fjölbreytta söngviðburði víðs vegar um borgina frá 20. október til 4. nóvember. 

  • Óperudagar í Reykjavík
    Óperudagar í Reykjavík

Tónlistarleikhúsið fær að flæða inn í króka og kima höfuðborgarinnar og ná til sem flestra íbúa. Byggt verður á reynslu Óperudaga í Kópavogi 2016 sem tilnefndir voru til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem Tónlistarhátíð ársins og vöktu mikla athygli fjölmiðla og í samfélaginu.

Möguleikar leynast í hverju horni þar sem áhersla er lögð á samruna listgreina, atvinnutónlistarmenn og nemendur troða upp og hitta borgarbúa bæði á förnum vegi og í menningarhúsum borgarinnar. Auk þess að glæða borgina lífi, hafa skipuleggjendur mikinn áhuga á að virkja þann gífurlega mannauð sem býr í klassískum söngvurum og samstarfsfólki þeirra og búa til nýjan starfsvettvang á Íslandi.

Aðstandendur Óperudaga eru nokkrir ungir söngvarar sem hafa ástríðu fyrir því að efla óperu- og tónlistarleikshússenuna á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á að bjóða upp á ókeypis viðburði svo sem flestir geti fengið góðs af að njóta, óháð ráðahag. Við lítum á okkur sem samfélagslega grasrótarhreyfingu sem hefur það að markmiði að auðga og lífga upp á samfélagið. 

Meðal þess sem er á dagskránni er Eftir nóttina, Súkkulaðikökuóperan, Krílasöngur og Óperuhlustun og Alzheimer svo eitthvað sé nefnt. 

Opnun Óperudaga verður á laugardaginn 20. október í Hallgrímskirkju.

Af nógu er að taka endilega kynnið ykkur dagskrá Óperudaga