Öll snjómoksturstæki kölluð út í nótt

Fylgjumst vel með veðri og færð í dag. Arctic Images/Ragnar Th.
Bíll á götu, snjókoma og fólk.

Mikið hefur snjóað í höfuðborginni og voru öll snjómoksturstæki kölluð út fyrir klukkan fjögur í nótt, bæði á götum og stígum. Aðstæður til snjómoksturs eru erfiðar því hætta er á því að fljótt fenni aftur í leið sem nýbúið er að skafa, sérstaklega í efri byggðum.

Vinnuvélar hafa verið að störfum á götum í Grafarvogi og Úlfarsárdal frá því í nótt. Búið er að fara eina umferð á strætóleiðum og verður önnur umferð farin strax aftur, enda hefur skafið í þær leiðir sem búið er að fara. Unnið verður við mokstur á aðalleiðum í dag og verður farið í húsagötur að því loknu og unnið í þeim næstu daga.

Athugið að stofnanalóðir við leik- og grunnskóla eru illfærar. Unnið er að  mokstri en það gengur hægt.

Snjómokstur er gerður eftir fyrirfram ákveðnum forgangi til að allt gangi sem best fyrir sig.

Forgangur gatna

Þjónustuflokkur 1: Helstu stofnbrautir, mikilvægar tengigötur vegna neyðarþjónustu, fjölfarnar safngötur og strætisvagnaleiðir.

Þjónustuflokkur 2: Aðrar safngötur og aðkoma að leik- og grunnskólum.

Þjónustuflokkur 3: Húsagötur.

Forgangur stíga

Þjónustuflokkur 1a: Hjólastígar.

Þjónustuflokkur 1: Stofnstígar.

Þjónustuflokkur 2: Aðrir fjölfarnir stígar.

Þjónustuflokkur 3: Minna notaðir stígar, oft í húsagötum.

Á vef Reykjavíkurborgar er hægt að lesa meira um snjóhreinsun í borginni og forgangsröðun gatna og stíga.

Hægt er að senda inn ábendingar um snjómokstur  á ábendingavefinn.

Athygli er vakin á því að gul viðvörun verður í gildi á höfuðborgarsvæðinu og víðar til klukkan 15 í dag. Förum varlega!