Öll lífsins gæði

Velferð

""

Reykjavíkurborg vinnur nú að því að vera aldursvæn borg samkvæmt stöðlum Alþjóða heilbrigðismálastofnunar (WHO). Stýrihópur skipaður starfsmönnum þvert á svið borgarinnar ásamt formanni öldungaráðs  vinnur að aðgerðaráætlun um hvernig þessu marki verði náð. Á dögunum heimsótti stýrihópurinn  Akureyrarbæ til að kynna sér þjónustu við aldraða. Mikill metnaður einkennir öldrunarþjónustu hjá Akureyrarbæ  og þar má margt læra.

Það var Halldór S Guðmundsson, framkvæmdastjóri öldrunarheimila Akureyrar,  sem skipulagði heimsókn stýrihópsins, sem byrjaði á hjúkrunarheimilinu Hlíð.  Í Hlíð  er unnið samkvæmt Eden-hugmyndafræðinni sem þýðir að áhersla er lögð á að vinna gegn einsemd og  vanmáttarkennd sem er helst veldur vanlíðan hjá  öldruðum.  Jafnframt er unnið eftir hugmyndafræðinni um þjónandi leiðsögn sem þýðir að öll samskipti byggja á virðingu, umhyggju og því að skapa traust milli einstaklinga.

Á Hlíð er umhverfið heimilislegt. Þar eru íbúar  hvattir til að setja sitt persónulega mark á vistarverur, s.s. að velja sér lit á herbergin sín og gæludýr eru velkomin.

Frá Hlíð var farið í Lögmannshlíð en það er fyrsta hjúkrunarheimilið á Íslandi sem reist er með Eden-hugmyndafræði í huga. Hjúkrunarheimilið er allt á  einni hæð með opnum rýmum og útgang á verönd og sameiginlegum garðskikum þar sem eru bæði kanínur og hænsni auk matjurtagarða.

Félagsstarfið í Punktinum vakti sérstaka athygli stýrihópsins en það er staðsett í gamla Barnaskóla Íslands. Punkturinn er er félags- og listasmiðja þar sem allir, óháð aldri, geta komið. Þannig hefur orðið til miðja listsköpunar meðal bæjarbúa þar sem gestir geta skapað úr viði, gleri, leir, vefnaði og öðru  því sem hugurinn girnist með litlum tilkostnaði. Mikið er lagt upp úr endurnýtingu og sjálfbærni í félagsstarfi eldri borgara.  Aldraðir sáu sjálfir um rekstur félagsstarfsins yfir sumarmánuðina. Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri hitti hópinn og ræddi um skipulag bæjarins m.t.t. aðgengis fyrir eldri borgara.

Öldungaráð Akureyrar leiddi hópinn um  Kjarnaskóg en eldri borgarar nýtir sér vel aðstöðuna þar til útivistar og heilsueflingar.  Fulltrúar í öldungaráði Akureyrarbæjar, Anna, Sigurður og Halldór voru sammála um að á Akureyri væru öll lífsins gæði, þjónustustig væri hátt miðað við stærð samfélagsins og mikið  lagt upp úr því að stutt væri í menningar-, félags- og íþróttastarf. Eldri borgarar nýta sér aðstöðu eða mannvirki sem þegar eru til staðar. Þannig fá þeir að nýta íþróttaaðstöðu bæjarins án mikils tilkostnaðar á þeim tímum sem aðrir eru ekki að nota hana.

Stýrihópurinn hélt aftur að Hlíð þar sem Jón Hrói Finnson framkvæmdastjóri og Bergdís Ösp Bjarkardóttir, forstöðumaður á búsetudeild, sögðu frá áherslum í búsetudeild, stuðningi og þjónustu en þar er lagt mikið upp úr flæði milli þjónustuþátta og því markmiði að efla og styrkja. Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu velti því fyrir sér hvernig maðurinn á allt æviskeið sitt möguleika á því að þroskast og bæta lífsgæði sín.  - Allt okkar bras með þjónustu og fjölbreytt val gengur út á hamingju og það er praktískara að standa í því saman en eitt og eitt.“ Sagði Þórgnýr.

Hann benti einnig á viðskiptalega nálgun þess að búa í aldursvænu samfélagi. Þar sem hugað er að þáttum eins og aðgengi er verið að opna tækifæri fyrir ferðamennsku fyrir fjölbreyttan hóp ferðamanna s.s. hreyfihamlaðra. Gott aðgengi gefur meira en það kostar. Með þessu og orðum gestgjafa okkar, Halldórs S Guðmundssonar, um að tæknilausnir í velferðarþjónustu væri framtíðin og lykillin að betri öldrunarþjónustu lauk annasömum degi á Akureyri . Stýrihópurinn flaug  suður með gott veganesti að norðan um aldursvænt samfélag. Stýrihópur um aldursvæna borg í Reykjavík mun fyrir jól leggja fram skýrslu um verkefnið og aðgerðaráætlun. 

Meira um verkefnið Reykjavík aldursvæn borg