Öll börn fædd árið 2011 hafa fengið boð um leikskólapláss

Skóli og frístund

""

Öllum börnum sem fædd eru á árinu 2011 býðst pláss í leikskólum borgarinnar eftir sumarleyfi. 465 börn fædd árið 2011 voru komin í vistun fyrir sumarleyfi, en að auki eru 883 börn á leið inn í leikskólana. Það gerir alls 1.348 börn sem fædd eru 2011.

Alls losnuðu 1.330 pláss í leikskólunum í sumar vegna þeirra barna sem fædd eru 2007 og setjast á grunnskólabekk í haust, en auk þess verður innritað í a.m.k. 400 önnur pláss sem hafa losnað, s.s. vegna flutninga barna frá Reykjavík eða á milli leikskóla.

Oft er erfitt að sjá fyrir hvar eftirspurn eftir leikskólaplássi er mest. Í fyrra reyndist erfiðast að koma öllum börnum inn í leikskólana í Vesturbæ, en í ár er það í Seljahverfi í Breiðholti. Verið að skoða möguleika á því að fjölga þar rýmum en eins og fyrr er markmið að öll börn sem verða tveggja ára á árinu fái leikskólapláss þótt það sé ekki í þeim leikskóla sem foreldrar óska helst.