Ókeypis á 50 söfn og sýningar á Safnanótt

Menning og listir Mannlíf

""

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 7. febrúar frá klukkan 18.00 til 23.00. Gestum Vetrarnætur býðst að fara á 50 söfn og skoða ótal sýningar á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið verður upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá.

Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Safnanæturleikurinn verður einnig í gangi og svara þarf nokkrum laufléttum spurningum. Glæsilegri vinningar í boði. Gestum Safnanætur er bent á að nýta sér Safnanæturstrætó sem mun ganga á milli safnanna á höfuðborgarsvæðinu.

19:00 Vígsla vitans – Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, vígir formlega vitann við Sæbraut og Karlakór Reykjavíkur og Fóstbræður syngja. Í framhaldi af því verður opið hús í Höfða til klukkan 21.00.

Kl. 20.00 Tákn í nýju ljósi – Arnarhvoll - Listaverkið Tákn eftir Steinunni Þórarinsdóttur verður lýst upp á Safnanótt. Við það tilefni verður frumflutt kórverk eftir breska tónskáldið Deborah Pritchard við ljóð Dave Neita. Verkið heitir "Trophies of Peace" eða ,,Sigurtákn friðar". Það er 10 manna kór, Cantoque Ensemble, sem flytur verkið.

Borgarbókasafn í Grófinni - Þögult þrumustuð! - Svarthvítt og þögult kvikmyndaþema svífur yfir vötnum í Grófinni og verður boðið upp á dulúðlega stemningu, en það verður líka þrumustuð! Skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna.

Árbæjarsafn – Draugaganga fyrir fullorðna -  Farnar verða sex hrollvekjandi draugagöngur um myrkvað safnið sem fá hárin til að rísa! Fyrstu tvær göngur kvöldsins verða barnvænar og bannaðar fullorðnum en seinni göngurnar verða hræðilegri.

Landnámssýningin – Glerperlur, mjöður og djass - Á Safnanótt verður blásið í gler og búinn til mjöður að hætti víkinga. Djassbandið Píanótríóið leikur fyrir gesti.

Listasafn Reykjavíkur – Örleiðsagnir - Á Safnanótt verða reglulegar örleiðsagnir um valin verk á sýningum í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum verður hægt að fara í heimsókn í listaverkageymslur.

Sjóminjasafnið – Safna Quiz og uppistand – Á Safnanótt verður boðið upp á leiðsögn um sýningu safnsins, spurningakeppni, sprenghlægilegt uppistand og heimsókn í varðskipið Óðinn.

Samtal milli kórs og striga – Ráðhús Reykjavíkur - Sigrún Harðardóttir myndlistamaður flytur gjörning í Ráðhúsi Reykjavíkur á Safnanótt í samvinnu við Harmoníukórinn undir stjórn Krisztinu Kalló Szklenár.

Garðabær mun iða af lífi á Safnanótt en þá verður opið hús og fjölbreytt dagskrá frá kl. 18-23 í Hönnunarsafni Íslands, burstabænum Króki og Bókasafni Garðabæjar við Garðatorg. Auk þess verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 19-22.

Í Hafnarfirði verður boðið upp á spennandi dagskrá. . Kvikmyndasafn Íslands og Hafnarfjarðarbær bjóða í bílabíó á bílastæðinu fyrir aftan Ráðhús Hafnarfjarðar. Sýndar verða tvær langþráðar kvikmyndir, Stuttur Frakki (1993) klukkan 18:30 og Sódóma Reykjavík (1992) klukkan 20.30. Gestir geta farið í BílabíóByggðasafnið, Bókasafnið og Hafnarborg opna dyr sínar fram á kvöld og bjóða uppá skemmtilega dagskrá frá kl. 18-23. Skuggasögupersónur, grínkóngar þöglu myndanna, örleiðsagnir og magnaðir munir í myrkir er meðal dagskrárliða sem verða í boði.

Hápunktur Safnanætur í Kópavogi verður þegar ljóslistaverkið Gárur eftir listakonuna ÚuVon verður varpað á Kópavogskirkju. Verkið er óður til sjávar og vatns sem á vel við núna þegar súrnun sjávar og vatnsgæði eru í brennidepli. Dagskráin er með kvikmyndaþema og endurspeglast það í þeim fjölmörgu viðburðum sem Menningarhúsin bjóða upp á. Meðal þess sem verður í boði eru fjölbreyttar smiðjur, tónleika, leiðsagnir, fyrirlestra, ratleiki og margt fleira.

Bókasafnið og Listasalur Mosfellsbæjar taka þátt í Safnanótt föstudaginn 7. febrúar frá kl. 18:00-21:00 og verður boðið upp á tónlistaratriði, ratleik allt kvöldið og Stjörnu-Sævar mætir og segir frá stjörnuhimninum.

Á Bókasafni Seltjarnarness verður opið frá 17.00 til 21.00 á Safnanótt. Boðið verður upp á tónlist, skemmtun, töfra, bingó, ratleik, getraun og föndur. Þá verður boðið upp á veitingar, pylsur, nammi og fullt af fjöri.

Þetta er aðeins brot af þeirri dagskrá sem í boði er á Safnanótt á vetrarhatid.is