Öflugar smitvarnir í skólum skila árangri

Skóli og frístund

""

Þrír grunnskólar opna að nýju eftir smitgát og skerðingum aflétt í tveimur leikskólum.  

Takmörkunum verður aflétt á skólastarfi í þremur grunnskólum og tveimur leikskólum eftir lokanir vegna smitvarna.  

Ekkert þeirra smita sem upp komu í skólunum dreifðist innan þeirra, hvorki til starfsmanna né barna. Smitvarnir sem gripið var til í upphafi skólaárs hafa því skilað tilætluðum árangri. 

Leikskólinn Hálsaskógur opnaði í dag og á morgun hefst skólastarf að fullu í Hvassaleitisskóla. Á mánudaginn 7. sept. hefst svo skólastarf í Álftamýrarskóla,  Barnaskóla Hjallastefnunnar og leikskólanum Ægisborg þar sem skerða þurfti þjónustu vegna sóttkvíar starfsmanna. 

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir að þakka beri stjórnendum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi fyrir útsjónarsemi, sveigjanleika og þrautseigju í skipulagningu skólastarfsins. Þá hafi foreldrar tekið hvatningu fræðsluyfirvalda mjög vel og skólasókn og ástundun sé eins og best verði á kosið.