Ófagur, ófagur plastpoki í sjó | Reykjavíkurborg

Ófagur, ófagur plastpoki í sjó

miðvikudagur, 24. janúar 2018

Ef ekki verður dregið úr einnota plastnotkun verður meira af plasti í sjónum en fiski árið 2050 en til þess að snúa þeirri þróun við verðum við öll að leggjast á eitt í að draga úr plastnotkun.

  • Hafið blá hafið.
    Það væri sorglegt að sjá plast fljóta um í blokkum á hafi úti.
  • Fiskinet fullt af plasti.
    Fiskinet fullt af plasti.
  • Nútíðin er fjölnota pokar en það er ekki laust við að notkun þeirra sé að verða trend.
    Nútíðin er fjölnota pokar en það er ekki laust við að notkun þeirra sé að verða trend og hægt er að velja um ótal tegundir.

Reykvíkingar geta líkt og aðrir jarðarbúar lagt sitt að mörkum og hér að neðan fara nokkuð ráð sem hægt er að fara eftir þegar draga á úr notkun á einnota plasti.

Margir velta fyrir sér hvað eigi að nota utan um úrgang sem til fellur á heimilinu eða í fyrirtækinu ef þeir hætta að kaupa einnota plastpoka við innkaup.  Hægt er að nota niðurbrjótanlega  poka eins og t.d. maíspoka, sem hafa yfirburði í umhverfislegu tilliti samanborið við plastpoka. Slíkir pokar eru framleiddir úr ýmsum hliðarafurðum, svo sem sellulósa, sem er ekki auðvelt að nýta í aðra framleiðslu. Því er framleiðsla þeirra að mjög takmörkuðu leiti í samkeppni við fæðuframleiðslu öfugt við það sem oft hefur verið haldið fram. Taka skal fram að slíkir pokar mega aldrei fara með plasti til endurvinnslu.

Fólk getur líka brugðið á það ráð að nota poka sem hvort sem er falla til á heimilinu undir blandaða úrganginn, s.s. pokana undan brauði, kartöflum eða öðrum varningi.   

Flokkun endurvinnsluefna eins og pappír, plast, gler og drykkjaríláta dregur úr þörfinni fyrir plastpoka undir blandaðan úrgang því endurvinnsluefnum má skila í lausu í endurvinnslu.

Íbúar í Reykjavík geta einnig sett blandaðan úrgang lausan í gráu tunnuna og þannig tamið sér pokalausan lífsstíl.  Það eykur þörf á þrifum á tunnunni og bera íbúar sjálfir ábyrgð á að halda tunnunni snyrtilegri en hægt er að kaupa hreinsun á tunnum vilji menn ekki spúla þær sjálfir.

Eitt er víst að draga verður úr notkun plasts því það getur borist út í umhverfið og valdið usla í náttúrunni svo áratugum og öldum skiptir. Evrópusambandið hefur gefið út markmið um að draga verulega úr notkun einnota plasts og að árið 2030 verði allar plastumbúðir úr endurvinnanlegu efni.

Hver íbúi hefur áhrif og auðveldlega má  hætta að nota einnota plastpoka, nýta ráðin hér að ofan og fara með fjölnota töskur og poka að versla.