Ó borg mín borg

Mannlíf

""

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir hefur talað við borgarbúa og greitt götu þeirra í 30 ár.

Hún vann áður um nokkurra ára skeið sem leigubílstjóri og segir það í raun ekki hafa verið svo frábrugðið því að vinna við símsvörun og afgreiðslu hjá Reykjavíkurborg en það hefur hún gert síðan 1990.
„Maður lærir að hlusta á fólk,“ segir hún.

„Reykjavík er bærinn minn. Ég ólst upp í Smáíbúðahverfinu, við vorum sex alsystkinin og tvö hálfsystkini þannig að hópurinn var stór. Ég vann ýmis störf. Var meðal annars í Hreyfilsbúðinni við Kalkofnsveg og keyrði leigubíl hjá Steindóri um nokkurra ára skeið. Maðurinn minn fyrrverandi var líka leigubílstjóri og ég keyrði á móti honum á morgnana. Það gat oft verið skrautlegt þegar fólk var að koma heim eftir djammið. Annars var ég mest heima að sjá um börnin okkar þrjú. Svo skildum við maðurinn minn og ég gekk inn á ráðningarskrifstofu. Það var laus staða við símavörslu og móttöku hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar í Síðumúla 39. Síðan hef ég bara verið hjá borginni og líkað það vel. Til Félagsmálastofnunar leitaði alls konar fólk. Ég komst fljótt að því að þótt ég væri fráskilin hefði ég það afskaplega gott miðað við þá sem ég lenti stundum í að tala við. Fólk sem átti ekki neitt og var algjörir einstæðingar. Ég hef alla tíð reynt að greiða götu allra sem hringja eins og við gerum sem vinnum við að taka við erindum fólks hjá borginni. Starfið er áhugavert en getur verið svolítið lýjandi og er ekki allra. Ég hef lært að brynja mig gagnvart vandamálum ókunnugs fólks. Svo tala ég eiginlega ekkert í símann á kvöldin. Skipti bara um föt og fer að dútla við eitthvað annað þegar ég er komin heim.  Mamma sagðist stundum vera sármóðguð vegna þess að ég hringdi aldrei í hana.

Mér hefur alla tíð þótt gott að vinna hjá borginni. Það er vel haldið utan um mann, félagslífið er frábært og ég hef kynnst mörgu góðu fólki og sterkum karakterum. Þá hef ég fengið ágæta menntun.  Ég hef lært á tölvur og farið á námskeið í samskiptum. Svo fær maður góðan stuðning ef eitthvað kemur upp á. Ég hef lent í sprengjuhótun þegar einn maður vippaði sér yfir móttökuborðið hjá okkur og lét illa. En einhvern veginn hefur maður lifað þetta  af.

Ég átti mér þann draum að vinna við Tjörnina enda hefur hún alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Ég byrjaði að vinna hjá borginni þegar Davíð Oddsson var borgarstjóri en þeir sem komu á eftir honum hafa allir verið ágætir. Ég ver alla borgarstjóra og dóttir mín segir stundum við mig. „Mamma, þú ert svo mikið Ó borg mín borg.“ Draumurinn rættist þegar ég fékk fastan samastað hérna í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir tæpum tveimur árum. Ég átti mér líka draum um að ferðast til Afríku og ég lét hann rætast í tilefni þess að ég verð sjötug í ágúst nk. Ég fór til Kenýa og sá nashyrninga, fílahjarðir, snorklaði í Indlandshafi og heimsótti heimili Karenar Blixen. Það var algjört ævintýri. Nú er það bara Hawai og Honolulu næst.

Ég hef áhuga á ljósmyndun og hef tekið talsvert af myndum í Reykjavík og víðar í gegnum tíðina og á orðið ágætt safn sem ég er að hugsa um að afhenda Ljósmyndasafninu. Mamma átti svona kassamyndavél og mér hefur alltaf þótt gaman að taka myndir. Það hefur verið mitt áhugamál. Svo hef ég áhuga á veiði og hef farið í Veiðivötn á hverju sumri. Ég lærði að veiða silung þegar ég var í sveit hjá frænda mínum á Mjóanesi við Þingvallavatn. Þingvellir eru fallegasti staður á Íslandi að mínu mati.“

Jóhanna er nú að hætta eftir 30 ára farsælt starf hjá Reykjavíkurborg. „Ég er stálhraust – það gera vestfirsku genin.“

Og hvað ætlar hún að gera fyrsta daginn eftir að hún kemst á eftirlaun. „Ég ætla í sund og vera lengi. Ég hugsa að ég sofi samt út. Ég er soddan B-týpa,“ segir Jóhanna að lokum og brosir.