Nýtt útlit á Nýlendugötu

Umhverfi

""

Nýlendugata á milli Norðurstígs og Ægisgötu verður endurnýjuð í sumar á vegum Reykjavíkurborgar, Veitna og Mílu. Norðurstígur verður jafnframt endurbættur. Framkvæmdin er á einstaklega áhugaverðum stað þar sem hið gamla mætir hinu nýja.

Hamarshúsið er eins og veggur til norðurs og í framhaldi af því til vesturs liggur nýleg bygging. Fyrir aftan þennan stönduga skjólvegg kúra falleg hús með mikinn karakter og sögu. Þarna er einskonar leynistígur en margar eftirtektarverðar borgir eru einmitt með mörgum leiðum af þessu tagi. Það er gaman að hafa svona leynileið í okkar eigin Reykjavík.

Þetta nýja svæði sem myndast mun nýtast íbúum auk gesta og gangandi. Leiðin í gegn fær nýtt og fallegt útlit en sveigðar línur í hönnuninni taka tillit til þess að þarna er um einstakan stað að ræða. Gangandi vegfarendur eru í forgrunni en ekki er verið að beina óþarfa umferð um svæðið enda er og verður ekki hægt að keyra þarna í gegn.

Húsið sem stendur við Nýlendugötu 9 var friðað 31. desember 2012 en friðunin nær til ytra byrðis hússins. Þetta litla, rauða hús sést vel frá Ægisgötu þar sem það sker sig frá annarri byggð og ber vitnisburð um aðra tíma þegar líf meirihluta Reykvíkinga var með ólíkum hætti en nú er.

Betri lýsing og bætt við beðum

Norðurstígur fær einnig andlitslyftingu. Yfirborð götunnar verður endurnýjað og bætt við beðum meðfram götunni. Lagnir verða endurnýjaðar og sett verður snjóbræðsla í götuna.

Á Nýlendugötunni er markmiðið að skapa vinalegt umhverfi með hellumynstri sem líkist blævængi. Göngustígurinn verður með snjóbræðslu. Lýsingin meðfram stígnum verður bætt og verður vegglistaverkið á gafli Ægisgötu 7 sérstaklega upplýst. Enn fremur verður bætt við gróðurbeðum og hjólabogum.

Landslag sá um landslagshönnun, Liska um lýsingarhönnun og Onno vann meðfylgjandi þrívíddarmyndir af svæðinu.

Beðin á svæðinu flokkast sem svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir. Í því felst að ofanvatn, regn og snjór, er nýtt á umhverfisvænan og staðbundinn hátt. Slíkar ofanvatnslausnir eru líka viðbragð við loftslagsbreytingum. Þær styðja meðal annars við grænna umhverfi, sem skapar í leiðinni aðlaðandi umhverfi fyrir mannlíf.

Áhrif gamalla tíma

Nýlendugata 9 tilheyrði svokölluðum Hlíðarhúsum, sem voru röð torfbæja. Hlíðarhús stóðu þar sem nú er Vesturgata 24, 26a, 26b, 26c og 28 og skáhallt niður að gatnamótum Ægisgötu og Nýlendugötu. Húsið sem nú stendur eftir er lítið einlyft timburhús, sem tilheyrði Norðurbæ Hlíðarhúsa b. Það var reist á grunni torfbæjarins árið 1898 og er í svipaðri stærð.

Hlíðarhús voru upphaflega hjáleiga jarðarinnar Reykjavíkur en voru orðin sjálfstæð jörð um 1600 og voru Ánanaust hjáleiga þaðan.

Gömlu bæirnir mótuðu leiðirnar í Reykjavík nútímans

Þessi gömlu bæir mótuðu hvernig sumar götur í Reykjavík liggja í dag. Fyrsti vísir að Vesturgötu, sem liggur sunnan Nýlendugötu, var einmitt stígur sem kallaðist Hlíðarhúsastígur og lá úr Grófinni vestur í Ánanaust.

Vitað er að Norðurstígur er með eldri götum í Reykjavík. Á korti Sveins Sveinssonar frá 1887 er merktur inn vegur frá Hlíðarhúsastíg og norður til sjávar. Þessi vegur hefur tengst inn á Vesturgötu á móts við Vesturgötu 17 og legið á mjög svipuðum slóðum og Norðurstígur er í dag, nema nyrst virðist hann vera töluvert fyrir vestan núverandi Norðurstíg.

15 manns fyrir 300 árum en nú um 200 manns

Árið 1703 bjuggu í Hlíðarhúsum 15 manns en 1762 voru íbúar orðnir 39. Þessa fjölgun má rekja til stofnunar Innréttinganna 1751. Upp úr 1866 var bærinn Reykjavík farinn að vaxa til vesturs eftir Hlíðarhúsastíg. Nýting Hlíðarhúsajarðarinnar breyttist frá því að vera bújörð í að vera tómthúsbýli. Í Hlíðarhúsum bjó margt tómthúsfólk en byggðin var þó blandaðri en í hinum tómthúsmannahverfum bæjarins því iðnaðarmenn bjuggu líka á þessu svæði. Síðasti torfbær Hlíðarhúsanna stóð til ársins 1930.

Til samanburðar þá eru sem stendur rétt tæplega 200 manns skráðir til heimilis á þessum reit sem markast af Tryggvagötu, Norðurstíg, Vesturgötu og Ægisgötu.

Framkvæmdir og upplýsingagjöf

Útboðið var opnað 10. júní og framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Verktími hefur verið áætlaður með hliðsjón af reynslu við sambærilegar framkvæmdir í miðborginni og er áætlað að verklok verði í október.

Aðgengi gangandi verður tryggt að öllum húsum á verktímanum. Reykjavíkurborg og Veitur vinna sameiginlega eftir nýjum verkferlum framkvæmda í miðborginni. Gott aðgengi á framkvæmdatíma og gagnleg upplýsingamiðlun meðan á framkvæmdum stendur verður í fyrirrúmi.

Hér má fara í leiðangur til að skoða hvernig stígurinn á milli Norðurstígs og Ægisgötu lítur út núna, fyrir framkvæmdir.

Búið er stofna síðu á vef Reykjavíkurborgar þar sem helstu upplýsingum um framkvæmdina verður miðlað.