Nýtt útibingó í tilefni af degi umhverfisins

Umhverfi

""

Dagur umhverfisins er haldinn hátíðlegur þann 25. apríl ár hvert og er af því tilefni kjörið að reima á sig gönguskóna og kanna skemmtileg útivistarsvæði í Reykjavík um helgina. Búið er að útbúa nýtt útibingó sem hægt er að nota til að auka við útiveru og safna nýjum stöðum í borginni.

Rauðhólar eru til að mynda töfrandi staður þar sem hægt er að hleypa ímyndunaraflinu lausu. Þeir mynduðust fyrir 4700 árum þegar Leitahraun rann frá gígnum Leiti hjá Bláfjöllum og allt til sjávar í Elliðavogi. Rauðhólar eru þyrping af svokölluðum gervigígum

Þennan dag, 25. apríl árið 1762, fæddist Sveinn Pálsson en hann var fyrstur Íslendinga til að nema náttúruvísindi. Sveinn var einmitt fyrstur til að átta sig á því að að gígar af þessu tagi myndast við gufusprengingar.

Vötnin við borgina

Þar sem nú eru Rauðhólar var áður grunnt stöðuvatn en núna þarf að leita aðeins lengra og heimsækja Elliðavatn og Helluvatn til að skoða vötn þarna í næsta nágrenni. Gaman er að heimsækja Elliðavatnsbæinn á veturna þegar jólamarkaðurinn er í fullum gangi en það er ekki síður skemmtilegt að sjá vatnið og nærliggjandi umhverfi lifna við á vorin.

Þarna eru margar gönguleiðir. Ein slík liggur frá bænum, meðfram Elliðavatni, í gegnum fallegan skóg, framhjá Helluvatni og til baka að bænum. Upplýsingar um gönguleiðir er að finna á mörgum skiltum á svæðinu. Stíga og gönguslóða í Reykjavík er enn fremur hægt að skoða í borgarvefsjá.

Leiðin liggur framhjá Gvendarbrunnum en þar er eitt af helstu vatnsbólum borgarbúa. Þetta hreina og ómengaða vatn er eitthvað til að vera þakklátur fyrir á degi umhverfisins sem aðra daga.

Róandi náttúruhljóð

Mörg útivistarsvæði í Reykjavík tengjast einmitt ám eða vötnum eða eru við strandlengjuna. Eitt slíkt svæði er Blikastaðakró, sem er nafn yfir um tveggja kílómetra langa strandlengju frá ósi Úlfarsár vestur að eiðinu út í Geldinganes. Þar er sérlega auðugt fuglalíf.

Útivist fylgja ýmis náttúruhljóð sem eru róandi fyrir sálina. Vitað er að það að vera úti í náttúrunni hefur jákvæð áhrif á líf og heilsu. Það er eitthvað sérstaklega endurnærandi við að ganga við vatn eða sjó og hlusta á árnið og öldunið. Fuglahljóðin eru síðan punkturinn yfir i-ið.

Fyrir fleiri hugmyndir að útivistarstöðum er hægt að taka þátt í nýja útivistarbingóinu sem má nálgast hér.

Hægt er að nota næstu vikur til að heimsækja þessa skemmtilegu staði. Það má taka þátt með því að tagga Reykjavíkurborg á samfélagsmiðlum og merkja við rafrænt eða einfaldlega með því að prenta út blaðið og merkja þannig við. Þetta er engin keppni heldur einungis til gamans gert. Það væri skemmtilegt ef þeir sem taka þátt myndu deila myndum af svæðunum með merkingunni #útibingó.

Reykvíkingar búa svo vel að hafa fjölmörg svæði sem kjörin eru til útiveru innan borgarmarkanna. 

Þetta er annað útivistarbingóið sem hefur verið gert til að benda á útivistarsvæði í borginni. Upplýsingar um fyrsta útibingóið má nálgast hér.

Munum að taka tillit til náungans

Útivistarsvæði Reykjavíkurborgar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda heilsu borgarbúa á tímum samkomubanns og hefur gangandi umferð víða verið mikil að undanförnu. Nauðsynlegt er að halda tveggja metra fjarlægð við næsta mann í göngutúrum. Til þess að það takist getur fólk sem gengur saman þurft að fara í einfalda röð þegar það mætir öðrum göngugörpum. Mikilvægt er að virða hægri umferð og halda sig hægra megin á stígum þegar verið er að mæta fólki til að hindra vandræðagang.

Reykjavíkurborg á Facebook.

Reykjavíkurborg á Instagram.

Gleðilegt sumar!