Nýtt skipulags- og samgönguráð fundar

Samgöngur Skipulagsmál

""

Fyrsti fundur skipulags- og samgönguráðs var haldinn miðvikudaginn 27. júní 2018. Ráðið er í sumarleyfi frá 11. júlí.

Á fundi borgarstjórnar þann 19. júní 2018 var tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna samþykkt: Borgarstjórn samþykkir að stofna skipulags- og samgönguráð. Ráðið fari með skipulags-, samgöngu- og byggingarmál og verði í flokki I skv. samþykkt um kjör og starfsaðstöðu borgarfulltrúa. Forsætisnefnd er falið að vinna samþykkt fyrir ráðið í samráði við umhverfis- og skipulagssvið, sem skal lögð fram til samþykktar á fyrsta fundi borgarstjórnar í september. Ráðið starfar samkvæmt samþykktum umhverfis- og skipulagsráðs þar til ný samþykkt liggur fyrir og fer með gildandi fullnaðarafgreiðsluheimildir þess ráðs. 

Fyrsti fundur var haldinn 27. júní. Þar lagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgöngurráðs fram tillögu að fundadagatali ársins 2018, sem var samþykkt. Gert er ráð fyrir að fundir skipulags- og samgönguráðs verði á miðvikudögum og hefjist þeir kl. 9 og standi að jafnaði til kl. 14. Skipulags- og samgönguráð fundar eftirtalda daga: 27. júní og 4. júlí og15., 22., 29. ágúst 5., 12., 19., 26. september 3., 10., 1.7, 24.,31. október 7., 14., 21., 28., nóvember 5.,12.,19. desember. 

Fundir skipulags- og samgönguráðs falla niður 11., 18., 25. júlí og 1.og 8. ágúst 2018 vegna sumarleyfa.

Aðalmenn í ráðinu eru Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúar eru Daníel Örn Arnarson, Baldur Borgþórsson og Ásgerður Jóna Flosadóttir.

Aðsetur skipulags- og samgönguráðs er að Borgartúni 10-12. Ritari ráðsins er Örn Sigurðsson skrifstofustjóri umhverfis- og skipulagssviðs. Verkefnisstjóri ráðsins er Marta Grettisdóttir, netfang: marta.grettisdottir@reykjavik.is.

Síða ráðsins