Nýtt Menningarkort slær í gegn

Menning og listir Mannlíf

""

Liðlega 200 manns komu á Kjarvalsstaði í dag til að kynna sér rauða Menningarkortið 67+ í dag. Kortið seldist upp á örskömmum tíma í afgreiðslu safnsins, en sent var eftir fleiri kortum til að anna eftirspurn. Mikil eftirspurn var einnig eftir kortinu um helgina.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, staðgengill borgarstjóra, kynnti nýja kortið og Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, flutti stutta ræðu.

Nýtt fyrirkomulag tók gildi þann 1. júlí s.l. og nú greiða allir fullorðnir einstaklingar sem ekki eru með Menningarkortið sama gjald inn á söfnin, 1.800 krónur.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Menningarkorts Reykjavíkur þá er um að ræða árskort sem veitir endurgjaldslausan aðgang að öllum söfnum Reykjavíkurborgar, 2 fyrir 1 aðgang að einhverju safnanna í hverjum mánuði, auk tilboða og sérkjara hjá fjöldamörgum samstarfsaðilum í menningarlífinu. Hefðbundna kortið, eða bláa kortið, kostar 6.000 kr. á ári.

Reykjavíkurborg vill gera vel við þá eldri borgara sem sækja söfnin og því var, samhliða nýju fyrirkomulagi, ákveðið að kynna til leiks sérstök Menningarkort fyrir 67 og eldri á afar hagstæðum kjörum, eða á sama verði og eitt stakt gjald fyrir söfnin.

Rautt Menningarkort fyrir 67 ára og eldri fæst nú með 70% afslætti, kostar 1.800 kr. og endurnýjun verður gjaldfrjáls að ári, ólíkt því sem er fyrir bláu Menningarkortin. Rauðu Menningarkortin 67+ eru nú á sérstöku kynningarverði út júlímánuð, en á þeim tíma kosta kortin 1.500 krónur.

Með þessu móti er verið að koma til móts við þennan hóp í von um að þau nýti sér það mikla menningarframboð sem borgin hefur upp á að bjóða í söfnunum. Boðið verður upp á sérstök tilboð til handhafa rauðra Menningarkorta, eða með tilteknum viðburðum og uppákomum sem verður beint til þeirra og er vonast til þess að sjá fjölgun gesta í þessum hópi.

Unnið hefur verið að undirbúningi rauða Menningarkortsins 67+ í samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni en stuðningur félagsins hefur skipt sköpum við að ýta verkefninu úr vör.

Menningarkort Reykjavíkur er hagkvæmasta leiðin til að njóta menningarlífs borgarinnar. Handhafar kortsins fá ótakmarkaðan aðgang að öllum sýningum og viðburðum í söfnum Reykjavíkurborgar, bókasafnskort endurgjaldslaust, afslátt í safnbúðum og njóta sérkjara hjá fjölmörgum samstarfsaðilum kortsins.

Nánari upplýsingar um rauða Menningarkortið 67+