Nýtt húsnæði Barnaverndar sérsniðið að þörfum fjölskyldna

Í rýminu eru leikföng fyrir börn á öllum aldri.

Á dögunum flutti Barnavernd Reykjavíkur í nýtt húsnæði að Ármúla 4. Húsnæðið er sérsniðið að þörfum foreldra og barna sem þurfa á aðstoð Barnaverndar að halda.

Á hverju ári tekur starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur á móti fjölda barna og fjölskyldna þeirra í húsnæði sínu. Um er að ræða viðtöl ráðgjafa við foreldra og börn, viðtöl sálfræðinga við börn sem orðið hafa vitni að heimilisofbeldi og regluleg viðtöl við fósturforeldra og börn í fóstri. Þá hefur orðið mikilvæg bragarbót á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur sem getur nú sinnt umgengni undir eftirliti í húsnæði sem er sérsniðið að þeirri starfsemi. Er hér fyrst og fremst um að ræða umgengni kynforeldra við börn sem eru vistuð utan heimilis, ýmist í tímabundnu eða varanlegu fóstri. Eðli máls samkvæmt er mikilvægt að unnt sé að taka á móti börnunum í notalegu rými þar sem jafnframt er gott næði. Því var mikið lagt í nýja húsnæði Barnaverndar og eru innréttingar og aðgengi til fyrirmyndar. 

Auðvelda foreldrum og börnum að eiga gæðastundir saman

Á fyrstu hæð nýja húsnæðisins er hlýleg móttaka. Þar eru jafnframt fundaherbergi og viðtalsherbergi, þar sem tekið er á móti foreldrum í viðtöl en þar fara meðal annars líka fram viðtöl við börn. Þar er einnig hið sérútbúna umgengnisrými, vel búið húsgögnum og leikföngum, fyrir börn á öllum aldri. Þar geta foreldrar átt gæðastundir með börnum sínum í hlýlegu og öruggu umhverfi, stutt er við foreldra og börn í umgengninni og tryggt að hún sé sem ánægjulegust.

Í nýja húsnæðinu er aðgengi fyrir fatlað fólk gott. Einnig er mikill kostur að engin önnur starfsemi er í húsinu, sem gerir starfsfólki betur kleift að gæta öryggis og persónuverndar fyrir skjólstæðinga sína.

Starfsfólk lagði hjarta og sál í að útbúa húsnæðið

„Við erum gríðarlega ánægð með nýja húsnæðið, sem uppfyllir allar kröfur fyrir starfsemi eins og okkar, þar sem bæði þarf að huga að öryggi og trausti,“ segir Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. Foreldrar og börn sem njóti þjónustu Barnaverndar séu oft í erfiðum aðstæðum og á viðkvæmum stað í sínu lífi. Því sé mikilvægt að öll umgjörð og aðbúnaður um starfsemina sé eins og best verður á kosið. Umhverfið þurfi að vera hlýlegt og umvefjandi, svo foreldrar, börn og starfsfólk finni til öryggis og trausts. Starfsfólk Barnaverndar sé afar meðvitað um mikilvægi þess og hafi lagt sig allt fram við skapa sem bestar aðstæður, með góðum árangri. „Starfsfólk hefur lagt hjarta og sál í að útbúa umgengnisrýmið, innréttað það af húsgögnum og útvegað leikföng fyrir börn á öllum aldri. Við höfum notið mikils velvilja frá fyrirtækjum með barnavörur. Nú er helst að okkur skorti í þetta rými afþreyingu fyrir eldri börn, eins og til dæmis leikjatölvur og fótboltaspil, en við erum að vinna í þessu,“ segir hún.
 

Svipmyndir úr nýju húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur