Nýráðnir frístundafræðingar ræða fagstarfið

Skóli og frístund

""

Á dögunum hittust um 30 nýráðnir frístundafræðingar, forstöðumenn frístundaheimila, skólastjórar og fleiri í Hinu Húsinu til að ræða framtíðar fyrirkomulag fagstarfsins, áskoranir og tækifæri.

Tildrög þessara nýju starfa frístundafræðinga má rekja til stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík sem leggur m.a. áherslu á að fjölga fagmenntuðum tómstunda- og félagsmálafræðingum í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, og tillögu í skýrslu starfshóps um bætt starfsumhverfi fagfólks á vettvangi frístundastarfs. Þessum nýju störfum er ætlað að styrkja félagsfærni og sjálfsmynd barna í 1.-4. bekk ásamt því að auka félagslega virkni þeirra í samstarfi við kennara, annað skólastarfsfólk og foreldra. Einnig er markmiðið að skapa betri tækifæri til að þróa samstarf frístundaheimila og grunnskóla.

Forstöðumenn frístundaheimila eru næstu yfirmenn frístundafræðinga en 25-35% af starfi frístundafræðinga fer fram á skólatíma í samstarfi við grunnskóla. Þar fyrir utan sinna frístundafræðingar undirbúningi og starfi með börnum á viðkomandi frístundaheimili.

Átta frístundafræðingar hófu störf veturinn 2018-2019, en árlega útskrifast 30-40 tómstunda- og félagsmálafræðingar frá Menntavísindasviði HÍ. Síðastliðið vor var þetta nýja starf kynnt fyrir útskriftarárganginum og haustið 2019 hófu um 30 frístundafræðingar störf hjá borginni. 

Á fundinum í Hinu Húsinu fór Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri frístundamála hjá SFS, yfir tilurð starfsins og sagði meðal annars frá skýrslu Embættis landlæknis frá október 2019 um geðrækt í skólum. I henni kemur fram að styrkja þurfi formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að sinna geðrækt, forvörnum og stuðningi við börn og ungmenni. Einnig segir í skýrslunni að auka þurfi þekkingu og færni starfsfólks til að styðja við þroska, líðan, hegðun og samskipti barna og efla markvissa kennslu í félags- og tilfinningafærni. Tómstunda- og félagsmálafræðingar hafa fengið góða þjálfun á þessu sviði í sínu námi og ættu því að vera góð viðbót inn í grunnskóla borgarinnar, auk þess sem þeir halda áfram að þjálfa upp þessa færni á frístundaheimilunum. Soffía sagði enn fremur frá erlendum rannsóknum sem hafa sýnt fram á að gott samstarf milli frístundaheimila og skóla geti haft jákvæð áhrif á bæði námsárangur og félagsfærni barna. Þessar rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á mikilvægi þess að samstarfsaðilar (eins og frístundaheimili og grunnskóli) hafi sameiginlega sýn og þar kemur ný menntastefna Reykjavíkurborgar sér sannarlega vel þar sem mikil áhersla er lögð á virka þátttöku, félagsfærni, sjálfseflingu og heilbrigði.

Ársæll Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði á menntavísindasviði HÍ, fjallaði á fundinum um mikilvægi félagsfærni, sjálfseflingar, umhyggju og virkrar þátttöku í skóla- og frístundastarfi. Hann sagði meðal annars frá því að í frístundastarfi gefast góð tækifæri til að læra að gera eitthvað með öðrum, taka tillit, eiga samskipti, skiptast á upplýsingum, leysa úr deilum, að þiggja og gefa ráð, virða reglur, taka áhættu, vinna í hóp, vera leiðtogi og svo margt fleira. Hjá honum kom einnig fram að lýðræði og frístundir væru keimlík fyrirbæri sem leggja áherslu á að gefa einstaklingum tækifæri til að vaxa, fá frelsi til að tjá sig, skapa og öðlast gott líf.

Þá sögðu frístundafræðingarnir Guðmundur Magnússon, Karen Ósk Ólafsdóttir, Ólöf Rún Erlendsdóttir og Rúna Kristín Stefánsdóttir frá störfum sínum og vel heppnuðum verkefnum á vettvangi. Virkilega gaman var að heyra hvað þau eru komin langt í samstarfinu og hvað það getur virkað vel að fá þessa faglærðu tómstunda- og félagsmálafræðinga inn í skólana á morgnana sem geta svo fylgt börnunum eftir inn í frístundaheimilin og leitt fagstarfið þar í samstarfi við forstöðumenn.

Að lokum var farið í hópavinnu þar sem rætt var um fyrirkomulag starfsins, verkefni frístundafræðinga bæði á starfstíma skóla og frístundaheimila, hvaða áskorunum þeir hafa verið að mæta og hvaða tækifæri felast í  þessu nýja starfi. Verið er að taka saman niðurstöður hópavinnunnar og verða þær sendar þátttakendum sem geta þá vonandi nýtt þær í frekari þróun starfsins. Stefnt er að því að halda slíka fundi reglulega við innleiðingu starfsins, auk þess sem hvatt er til þess að frístundafræðingar innan hverfa hittist og deili hugmyndum sín á milli. Frístundafræðingum var líka bent á verkfærakistu menntastefnunnar þar sem m.a. er að finna verkefni sem miða að því að þjálfa félagsfærni og sjálfseflingu. Þar er einnig kjörinn vettvangur fyrir frístundafræðinga til að deila góðum verkefnum sem þeir hafa verið að prófa og nota í sínum störfum.