Nýr skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu

Umhverfi Skipulagsmál

""
Hjalti Jóhannes Guðmundsson hefur verið ráðinn skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins sem starfrækt er á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar auglýsti þann 26. september 2015 lausa til umsóknar stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins. Umsóknarfrestur rann út 12. október. Alls bárust 53 umsóknir en 3 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Capacent vann úr umsóknunum.
 
Hjalti Jóhannes Guðmundsson reyndist standa öðrum umsækjendum framar að loknu heildstæðu mati. Hjalti Jóhannes hefur átt farsælan starfsferil en síðustu 10 ár hefur hann verið stjórnandi hjá opinberum stofnunum með ábyrgð á rekstri, starfsmannamálum og stjórnsýslu. Hjalti Jóhannes var sviðsstjóri náttúruauðlindasviðs Umhverfisstofnunar frá 2008-2013. Haustið 2013 var Hjalti Jóhannes ráðinn deildarstjóri á skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlandsins en hefur síðastliðið hálft ár starfað sem settur skrifstofustjóri skrifstofunnar.
 
Hjalti Jóhannes Guðmundsson er landfræðingur að mennt með B.S. og M.S. gráður frá Háskóla Íslands og doktorspróf í náttúrulandfræði frá Háskólanum í Edinborg, Skotlandi. Hjalti hefur einnig diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og hefur frá 2013 lagt stund á nám til MPA gráðu  í opinberri stjórnsýslu.
 
Hjalti er boðinn velkominn í öflugan hóp stjórnenda á umhverfis- og skipulagssviði.