Nýr og grænn borgarhluti

Skipulagsmál

""

Tillögur að deiliskipulagi fyrir fyrstu tvo áfanga í uppbyggingu borgarhlutans voru samþykktar til auglýsingar í skipulags- og samgönguráði í dag og vísað til borgarráðs.  Ártúnshöfði, Elliðaárvogur er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta rísi allt að átta þúsund íbúðir í áföngum. Í fyrstu tveimur áföngum er gert ráð fyrir 3.500 íbúðum, tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við fjölbreytta þjónustu og aðra atvinnustarfsemi á næstu árum. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið. 

Borgarhverfi með BREEAM-umhverfisvottun

Hér er um tímamóta tillögur að ræða því um er að ræða nýtt blandað borgarhverfi sem auk þess er það fyrsta sem stefnt er að umhverfisvottun í samræmi  við BREEAM Communities vistvottunarkerfið. Borgarhlutinn samanstendur af Ártúnshöfða, Bryggjuhverfi og nýju Vogahverfi austan Sæbrautar. 

Öll uppbyggingin sem fyrirhuguð er á svæðinu er á mikið röskuðu landi sem verið hefur athafna- og iðnaðarsvæði um langt skeið en verður nú umbreytt að stórum hluta til í íbúðasvæði og verslunar- og þjónustusvæði sem hverfist um miðpunkt svæðisins sem er við svokallað Krossamýrartorg, þar sem fyrirhuguð er blómleg miðbæjarstarfsemi. Megináherslur tillögunnar eru hagkvæm nýting lands, græn svæði og vistkerfi, almenningssamgöngur, atvinna, blöndun byggðar og lýðheilsa.

Að tillögugerðinni komu ráðgjafastofurnar Arkís arkitektar, ASK arkitektar, Landslag og Verkís en yfirumsjón skipulagsvinnunnar var hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur. Einnig var lögð fram; Hönnunarhandbók fyrir opin svæði, inngarða og almenningsrými sem setur ný vistvæn viðmið við hönnun gatna og grænna svæða og verður meðal annars leiðarljós við hönnun og útfærslu regnavatnslausna á öllu svæðinu.

Alvöru valfrelsi í lifandi hverfi

„Hér er verið að umbylta gráasta svæði borgarinnar, þar sem varla er stingandi strá að finna í dag, og gera það grænt og lifandi með víbrandi borgarpúls þar sem þú hefur allt til alls. Við viljum með þessu skapa alvöru valfrelsi fyrir fólk um samgöngumáta í þágu loftslagsins og velferðar og lýðheilsu okkar allra,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi sem stjórnaði fundinum í dag. „Í fyrsta sinn er að rísa alveg nýtt hverfi þar sem borgin vex að fullu inn á við frekar en út á við og þétt byggð með íbúum á við fjöldann í Grafarvogi á sjöfalt minna svæði. Þannig förum við betur með auðlindirnar okkar og sköpum alvöru borg fyrir fólk, frjósaman grunn fyrir blómstrandi samfélag.“

Samráð við borgarbúa

Samráð við borgarbúa og alla hagaðila er sett í forgang og öll upplýsingagjöf mjög mikilvæg og af því tilefni hefur heimasíða verið sett upp um svæðið https://skipulag.reykjavik.is/. Samráð- og kynningar á áformum um uppbyggingu Ártúnshöfða og Elliðaárvoga fór fram samhliða allri skipulagsvinnu og heldur áfram á formlegum auglýsingatíma verkefnisins. Kynningarfundur var haldinn 25. febrúar síðastliðinn og þar má horfa á myndbönd af kynningum

Punktar um svæðið

  • Kjarni svæðisins verður við Krossamýrartorg þar sem gert er ráð fyrir nýju menningarhúsi í tengslum við torg og almenningsgarð í tengslum við eina helstu skiptistöð Borgarlínunnar í austurhluta borgarinnar.
  • Niðri við Elliðaárvoginn verður áherslan á íbúðabyggð en einnig er gert ráð fyrir þjónustustarfsemi á völdum stöðvum sem þjóna mun hverfinu. Þar er einnig gert ráð fyrir tveimur skólabyggingum auk sundlaugar úti Grafarvoginn.
  • Mikil áhersla hefur verið lögð á að skapa góð og græn almenningsrými í deiliskipulags-vinnunni sem meðal annars má kynna sér í hönnunarhandbók svæðisins.
  • Á skipulagssvæðinu er gert er ráð fyrir tveimur stærri skólabyggingum á skilgreindum skólalóðum þar sem flétta á saman leik- og grunnskóla. Þar að auki er gert ráð fyrir að minni leikskólar fyrir yngri börn geti verið staðsettir víðar innan hverfisins.
  •  Borgarlínan mun liggja sem hryggjarstykki í gegnum hverfið en einnig hafa góðar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verið í brennidepli.
  • Ártúnshöfði og Elliðavogur eru rétt við helstu útivistarsvæði borgarinnar og í mikilli nálægð við viðkvæma náttúru. Því verða deiliskipulagsáætlanirnar fyrir Ártúnshöfða og Elliðavog með BREEAM umhverfisvottun. https://skipulag.reykjavik.is/umhverfisvottun/

Almennt um skipulagssvæðin tvö

Svæði eitt er um það bil 16 ha að stærð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu um 1570 íbúða, skóla, verslunar- og þjónustusvæði við Krossamýrartorg, almenningsrýmum, Borgarlínu og Borgarlínustöð. Svæði tvö - Sævarhöfði á Ártúnshöfða er um það bil 18 ha að stærð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu allt að 1917 íbúða, safnskóla og skóla, verslunar- og þjónustusvæði, almenningsrýmum, Borgarlínu og Borgarlínustöð. Samhliða skipulagsgerðinni er unnið að vistvottun skipulagsins samkvæmt forsendum vistvottunarkerfisins BREEAM Communities.

Hvers vegna og hvernig byggð?

  • Af hverju? Borgin stækkar og íbúum fjölgar.  Ártúnshöfðinn er mjög heppilegt uppbyggingarsvæði, miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru mikil tækifæri fyrir fjölbreyttar samgöngur.
  • Hvað með atvinnu og verslun og þjónustu innan borgarhlutans? Kjarni verslunar, þjónustu, afþreyingar og veitingastaða er við Krossamýrartorg, í hjarta skipulagssvæðisins. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu í smærri mynd, á smærri mælikvarða annars vegar við Bryggjutorg í Bryggjuhverfi vestur og hins vegar við biðstöð Borgarlínu, rétt austan við Elliðaár á svæði 2.
  • Hönnun grænna svæða? Áhersla er lögð á gott aðgengi að innihaldsríkum útivistarsvæðum sem mynda samhangandi vef. Í skipulagi byggðar á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog er manneskjan í fyrirrúmi í sátt við umhverfið.
  • Samgöngur? Almenningssamgöngum, reiðjólum og gangandi verður gert hátt undir höfði með Borgarlínu sem hryggjarstykki hverfisins.
  • Hvernig byggð? Skipulagstillögurnar gera ráð fyrir blandaðri byggð og fjölbreyttu íbúðaformi í fjölbýli á báðum svæðum, í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar. 
  • Hvar verða leik- og grunnskólar? Gert er ráð fyrir þremur skólum yngri deilda og einum safnskóla eldri deilda.

Tillagan fer nú fyrir borgarráð og þaðan í auglýsingu sem kynnt verður síðar.

Tenglar

Tilllaga: Deiliskipulag: almenn greinargerð.

Heimasíða um Höfðann sem verður uppfærð áður en tillögurnar fara í auglýsingu.