Nýr íbúðakjarni við Austurbrún

Velferð

""

Nýr íbúðakjarni við Austurbrún var formlega afhentur velferðarsviði í dag en kjarninn er sérhannaður fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir í huga.

Íbúðakjarninn við Austurbrún er samstarfsverkefni Félagsbústaða og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þar sem Félagsbústaðir sjá um fasteignina en velferðarsvið sér um alla þjónustu við íbúa kjarnans.

Við Austurbrún eru sex íbúðir, sérhannaðar að þörfum íbúa sem gerir þeim kleift að halda sitt eigið heimili með aðstoð starfsmanna í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um þjónustu við fatlað fólk. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og sveigjanleg og löguð að hverjum og einum til að styðja íbúa til þess að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á sínum eigin forsendum.  Íbúðirnar eru rúmgóðar, með sér palli og góðum sameiginlegum garði.

Starfsmenn á Austurbrún verða um tuttugu talsins en starfsemi og þjónusta hússins er mönnuð allan sólarhringinn alla daga ársins. 

Það voru Félagsbústaðir sem sáu um verkefnisþróun íbúðakjarnans en verkfræðingar, arkitektar og sérfræðingar frá velferðasviði í málefnum fatlaðs fólks unnu saman að hönnuninni með þarfir íbúanna í huga. Arkitekt og teymisstjóri verkefnisins er Gunnar Bogi Borgarsson. Flotgólf verktakar sáu um byggingu kjarnans en framkvæmdir við kjarnann hófust í febrúar árið 2017 og það hefur einungis tekið rúmt ár að byggja hann. 

Austurbrún er annar íbúðakjarninn sem opnaður er á árinu en sams konar kjarni opnaði að Kambavaði í apríl og síðar í sumar einnig í Einholti.

Með áframhaldandi samstarfi Félagsbústaða og velferðarsviðs er í pípunum uppbygging á fjórum nýjum íbúðakjörnum sem verða við Árland og Stjörnugróf í Fossvogi,  Móaveg í Grafarvogi og við Rökkvatjörn í Úlfarsárdal.  Undirbúningur þessara kjarna er mis langt á veg kominn en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við þá geti hafist með haustinu. Stefnt er að því að búið verði að byggja a.m.k. hundrað íbúðir sérstaklega fyrir fatlað fólk fyrir árslok 2019