Nýr íbúðakjarni að Einholti 6

Mannréttindi Velferð

""

Nýr og glæsilegur íbúðakjarni fyrir fatlað fólk að Einholti 6 var afhentur velferðarsviði í gær.

Það var glatt á hjalla í nýjum íbúðakjarna velferðarsviðs að Einholti 6 í gær en þá afhenti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilvonandi íbúum lyklana að nýjum íbúðum. Flestir íbúanna hafa til þessa búið í foreldrahúsum en fá nú rúmgóðar einstaklingsíbúðir til búsetu.

Í kjarnanum munu sex einstaklingar halda eigið heimili með aðstoð starfsmanna.  Þjónustan er veitt í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar  um þjónustu við fatlað fólk og er einstaklingsmiðuð og sveigjanleg.  Markmiðið er að styðja fólk til þess að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á sínum eigin forsendum.

Í Einholti verður veitt sólarhringsþjónusta. Búið er að ráða forstöðumann og hluta af starfsfólkinu.

Íbúðakjarninn að Einholti 6  er þriðji íbúðakjarninn sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar fær afhentan á árinu. Í vor voru eins kjarnar opnaðir við Kambavað 5 og Austurbrún 6b. Árið 2016 var eins íbúðakjarni tekinn í notkun að Þorláksgeisla. Fleiri slíkir kjarnar eru í undirbúningi. 

Grunnstefið í byggingarferli þessara íbúðakjarna er að skapa heimilisfólkinu persónulegt umhverfi í íbúðum sem bjóða upp á einkalíf. Öll hönnun miðar að því að tryggja íbúunum gott líf, en einnig gott starfsumhverfi fyrir starfsfólkið.

Búseti sá um byggingu íbúðakjarnans í samráði við Félagsbústaði og sérfræðinga velferðarsviðs í málefnum fatlaðs fólks. Þess má geta að lóðin við fjölbýlishús Búseta að Einholti og Þverholti fékk fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir smekkvísi og skemmtilegar lausnir. Þar er mikill gróður, berjarunnar og trjábeð.