Nýr hjólastígur og hljóðvörn við Kringlumýrarbraut

Framkvæmdir Samgöngur

""

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastígs ásamt hljóðvarnaraðgerðum vestan við Kringlumýrarbraut á milli Miklubrautar og Bústaðavegar.

Samhliða því að hjólastígur verður lagður á umræddum kafla verður núverandi göngustígur endurgerður. Þá verður komið fyrir hljóðvörnum fyrir aðliggjandi byggð vegna hávaða frá umferðinni á Kringlumýrarbraut.  Hljóðvörnin verður veggur, tveir og hálfur metri á hæð, með margvíslegum klifurjurtum.

Veitur munu endurnýja og breyta lögnum samhliða framkvæmdinni. Forræði framkvæmdarinnar verður hjá Veitum en verkefnið er einnig samstarfsverkefni með Vegagerðinni. Kostnaðaráætlun er 270 milljónir þar af er hlutur Reykjavíkur 185 milljónir króna.

Verkefnið er í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla vistvæna ferðamáta og hluti af hjólreiðaáætlun borgarinnar sem miðar að því að auka hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í borginni. Aukin hlutdeild hjólreiða er hagkvæm og skapar betri borg þar sem eldsneyti sparast og útblástur gróðurhúsalofttegunda minnkar. Hjólreiðar hafa enn fremur góð áhrif á lýðheilsu og lífsgæði í borginni.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist nú á vordögum og verði lokið síðla hausts.