Nýr framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur

Velferð

""

Hákon Sigursteinsson sálfræðingur og deildarstjóri skólaþjónustu í Breiðholti hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur.

Hákon mun hefja störf sem framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur um miðjan ágúst. Níu umsóknir bárust um stöðuna en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Frá árinu 2005 hefur Hákon verið deildarstjóri skólaþjónustu í Breiðholti og staðgengill hverfisstjóra Breiðholts, en skólaþjónustan annast þjónustu við börn og nemendur ásamt ráðgjöf við foreldra, skólastjórnendur og starfsfólk. Auk þessa hefur Hákon starfað sem vinnusálfræðingur, verið meðdómari í forsjármálum, dómskvaddur matsmaður og sinnt úttektum og kennslu.

Skólaþjónustan í Breiðholti hefur verið undir stjórn Hákonar í fararbroddi í ýmsum verkefnum sem snerta börn og unglinga, meðal annars með Breiðholtsmódelinu sem snýst um að veita snemmtæka þjónustu. Vinnuaðferðin hefur verið tilnefnd af menntamálaráðuneytinu sem framlag Íslands í samnorrænu verkefni um þverfaglegt samstarf vegna barna í áhættuhópum.

Hákon lauk embættisprófi í sálfræði frá Háskólanum í Árósum árið 1996 með áherslu á vinnusálfræði. Hann hóf störf sem skólasálfræðingur á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur árið 1997 og varð síðar deildarstjóri sálfræðideildarinnar árin 1999 til 2005 og yfirmaður allra sálfræðinga í grunnskólum á vegum Reykjavíkurborgar.

Sem stjórnandi í skóla- og sálfræðiþjónustu fyrir börn í Reykjavík í tæp tuttugu ár hefur Hákon breiða og mikla þekkingu á umhverfi barna og daglegum aðstæðum auk helstu áhættuþátta í uppvexti barna og unglinga.