Nýr búsetukjarni á Lindargötu

Velferð

""

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ásamt starfsmönnum velferðarsviðs,  tók í dag við nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk á Lindargötu 64 en íbúðirnar eru í eigu Félagsbústaða.

Í búsetukjarnanum verða sjö íbúðir fyrir geðfatlaða einstaklinga og ein starfsmannaíbúð. Þar að auki losnar ein íbúð í búsetukjarna að Bergþórugötu, því starfsmenn verða nú með aðsetur á Lindargötunni. 

Opnun búsetukjarnans á Lindargötu 64 og sú þjónusta sem þar verður í boði er jákvæð þróun í þjónustu við fatlað fólk sem lengi hefur verið beðið eftir. Starfsmannaaðstaðan að Lindargötu verður opin þeim sem búa nú þegar í búsetukjörnum á Bergþórugötu og Skarphéðinsgötu. Íbúar allra þriggja búsetukjarnanna geta leitað á Lindargötu eftir stuðningi og ráðgjöf.

Aðeins eru sex mánuðir frá því velferðarráð tók ákvörðun um opna búsetukjarnann á Lindargötu þar til hann var opnaður í dag. Létt var yfir gestum við opnunina enda er hér stigið skref fram á við í búsetumálum fatlaðs fólks.

Íbúðirnar eru bjartar og fallegar auk þess sem íbúar geta notfært sér þjónustu að Vitatorgi, Lindargötu 59 en þar er bæði mötuneyti og félagsstarf.  Húsfélagið á Vitatorgi færði kjarnanum blóm og bauð íbúa og starfsfólk velkomið í hverfið.

Stefán Eiríksson sviðsstjóri velferðarsviðs hafði að orði að í dag, fimmtudaginn 21. maí, væri Eurovision og hugur manna væri hjá Maríu, fulltrúa Íslands, í keppninni en að lagið frá því í fyrra ætti mjög vel við móttökurnar að Lindargötu en Pollapönk söng þá Burtu með fordóma.

Borgarstjóri tók undið orð Stefáns og bætti við að af Litlum neista yrði oft mikið bál og sagði að Reykjavíkurborg vildi gera enn betur í húsnæðismálum fatlaðs fólks.