Nýjar strætóakreinar og hljóðvarnir við Miklubraut

Framkvæmdir Samgöngur

""

Borgarráð hefur ákveðið að bjóða út framkvæmdir við forgangsakrein fyrir strætó á Miklubraut á milli Rauðarárstígs og Lönguhlíðar. Þá verða einnig boðnar út framkvæmdir við strætóakrein á Miklubraut við Rauðagerði, frá göngubrú við Skeiðarvog til austurs að rampa að Reykjanesbraut.

Á báðum stöðunum verður komið verður fyrir hljóðvörnum úr jarðvegi og grjótbúrum til að minnka hávaða frá umferð við íbúðabyggð við Rauðagerði og við Miklubraut. Innan við hljóðmanir verða nýir göngu- og hjólastígar.
Lögð verður ný forgangsakrein fyrir strætó meðfram Klambratúni á milli Rauðarárstígs og Lönguhlíðar. Þá verður lagður nýr göngu- og hjólastígur norðan Miklubrautar meðfram Klambratúninu. Á gatnamótum Reykjahlíðar og húsagötu við Miklubraut verður hellulagt torg. Biðstöðvar strætó flytjast aðeins til og verða endurnýjaðar. Meðfram Miklubraut verða gerðar hljóðvarnir úr grjótkörfum að norðanverðu og steyptum vegg að sunnanverðu. Gróður verður settur í miðeyju Miklubrautar og við stíga meðfram Klambratúni.

Götulýsing verður endurnýjuð eftir þörfum ásamt því að unnið verður við endurnýjun á veitulögnum samhliða framkvæmdunum. 

Reykjavíkurborg vinnur báðar framkvæmdir í samstarfi við Vegagerðina og Veitur ohf.

Framkvæmdirnar eru í samræmi við setta stefnu í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 - 2030 um að auka vægi almenningssamgangna og auðvelda fólki að komast leiðar sinnar gangandi og hjólandi um borgina, en aðalskipulagið leggur mikla áherslu á fjölbreytni í samgöngumátum.