Nýjar íbúðir í Mörkinni

""

Grund vígði í dag 74 nýjar íbúðir fyrir eldri borgara í Mörkinni, Suðurlandsbraut 70a, en Reykjavíkurborg lagði til lóðina, sem stofnframlag að íbúðum fyrir eldri borgara.

Það var margt um manninn í Veitingasal nýju húsakynnanna þegar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri klippti á borða ásamt Guðrúnu Birnu Gísladóttur, forstjóra Grundar,  til merkis um að húsið væri formlega tekið í notkun.

Bygging íbúðanna hófst 15. júlí 2016 og nú tveimur árum síðar eru þær tilbúnar og allar seldar utan ein. Samtals búa og starfa u.þ.b. 600 manns á svæðinu. Það var ÞG verk ehf. sem byggði húsið en Gláma Kím arkitektar tóku að sér hönnun og útlit íbúðanna í samvinnu við verktaka. Íbúðirnar eru frá 74 til 104 fm. eða samtals 5.971 fm. Heildarbyggingakostnaður nam um 2,6 milljörðum.

Að sögn borgarstjóra eru þessar 74 íbúðir hluti að um 500 nýjum íbúðum sem eru þegar tilbúnar eða verða það innan fárra mánaða. Íbúðirnar eiga það sameiginlegt að vera  byggðar á sem hagkvæmastan hátt m.a. með stofnframlagi lóða frá borginni. Í áætlun munu 2500 slíkar íbúðir rísa í Reykjavík á næstu árum.