Ný stefna um upplýsingatækni í skólastarfi

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt nýja stefnu um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi . Stefnumótunin nær til aðbúnaðar, þjónustu, uppbyggingu þekkingar, notkunar og framsækni.

Í stefnunni er meðal annars sett fram það markmið að aðgengi að neti, tækniumhverfi og öðrum búnaði skuli stuðla að jafnræði barna og ungmenna og byggi á náms- og kennslufræðilegum áherslum og þörfum skóla- og frístundastarfsins. Einnig að grunnskólar skuli geta farið í vel skilgreind verkefni sem miðist við að nemendur hafi yfir að ráða snjalltæki í náminu.

Þá er í stefnunni kveðið á um öfluga kennslufræðilega ráðgjöf, teymisvinnu og tæknilega þjónustu þegar kemur að upplýsingatækni. Fjölbreytt símenntun skuli vera í boði fyrir starfsfólk þegar kemur að nýrri tækni og að hagnýtu efni til fræðslu skuli miðlað með markvissum hætti.

Upplýsingatæknistefnan er í takti við áherslur í menntastefnu sem er í mótun þar sem fjallað er um að nýta upplýsingatækni til að styðja við fjölbreyttar þarfir barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi.  Þannig er kveðið á um að upplýsinga-, miðla og tæknilæsi séu lykilþættir sem styðji við áhuga og styrkleika barna og ungmenna, við gagnrýna og skapandi hugsun, samstarf, virkni, tjáningu og miðlun.
Að lokum er kveðið á um framsækna tækninotkun til að virkja sköpunarkraft starfsmanna og barna og styðja við margvíslegt frumkvöðlastarf, s.s. í Fab Lab Reykjavík.

Innleiðingaráætlun og kostnaðarmat var lagt fram með  stefnu um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi sem tengist 21 áhersluatriði í stefnumótuninni til næstu þriggja ára. Sú áætlun nær jafnframt til tillagna starfshóps um símenntun í upplýsingatækni og tillögur starfshóps um upplýsingatækni í leikskólastarfi.

Sjá stefnu um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi.