Ný leikskólalóð við Ægisborg vekur lukku

Skóli og frístund

Börn að leik við Ægisborg

Mikil gleði ríkir meðal barna og starfsfólks í leikskólanum Ægisborg, en miklar endurbætur hafa verið gerðar á lóð leikskólans með landmótun, nýjum leiktækjum og gangstéttum. 

Lokið er við síðari hluta endurbóta á leikskólaóðinni og var haft að leiðarljósi að leiktæki og leiksvæði uppfyllltu þarfir allra aldurshópa í skólanum. Þannig er útisvæði með gervigrasi fyrir börnin þar sem þau geta farið í boltaleiki, gróðurkössum hefur verið komið fyrir, klukkkuspili og skemmtilegum leiktækjum. Þá hefur lóðinni skipt upp þannig að auðvelt er að vinna með barnahópa á ýmsum aldri á afmörkuðum útisvæðum og fellur það vel að áherslum leikskólans um hreyfingu og útivist.

Leitað var eftir sjónarmiðum barnanna áður en nýja leikskólalóðin var teiknuð og voru óskir þeirra um bát og hákarl uppfylltar, en sérstök áhersla var lögð á tengingu leikskólans við sjávarsíðuna. 

Nýja lóðin var tekin í notkun í liðinni viku við mikinn fögnuð barna og starfsfólks en frekari hátíðahöld verða að bíða þar til fer að vora. 

Arkitektastofan Landslag og Mannvit hönnuðu skólalóðina en um framkvæmdir sáu Sólgarður og Leiktæki & sport.