Ný göngubryggja rís við Norræna húsið

Framkvæmdir Umhverfi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti Norræna húsið í morgun og kynnti sér framkvæmdir við nýja göngubryggju við Hústjörn.

Verkið er nokkuð vel á veg komið og er unnið samkvæmt niðurstöðum samkeppni sem haldin var um heildarskipulag fyrir svæðið á milli Sturlugötu, Sæmundargötu, Hringbrautar og Njarðargötu. Lögð var áhersla á að tengja svæðið betur við aðra borgarhluta auk þess að opna gátt á milli Tjarnar og Vatnsmýrar. Norræna húsið, Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg efndu til samkeppninnar.

Nýja göngubryggjan við Hústjörn mun hafa tengingar við göngustíga borgarinnar og Norræna húsið. Hún mun bæta umferð gangandi vegfarenda, undirrstrikar sérstöðu friðlandsins í Vatnsmýri og býður upp á upplifun og aðgengi fyrir alla. Göngubryggjan skapar tækifæri til að fylgjast betur með villtu fuglalífi og til að njóta náttúrunnar í friðlandinu.

Kostnaður við framkvæmdina er 50 milljónir en Mannvit sér um framkvæmdirnar. Eru framkvæmdalok áætluð í byrjun júlí.

Norræna húsið kostar framkvæmdir við stíga og yfirborðsfrágang innan lóðar.