Ný dagdvöl á Hrafnistu á Sléttuvegi

Velferð

""

Í dag opnaði Hrafnista formlega dagdvölina Röst á Sléttunni við Sléttuveg. Á dagskrá var ávörp Hálfdans Henryssonar, stjórnarformanns Sjómannadagsráðs, Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Bryndísar Rutar Logadóttur deildarstjóra dagdvalarinnar.

Í dagdvölinni Röst munu 30 einstaklingar 67 ára og eldri njóta þjónustu alla virka daga frá klukkan átta til fjögur. Þar verður fjölbreytt dagskrá s.s. spilamennska, púsl, málun, líkamsrækt og skemmtilegir viðburðir. Á Hrafnistu á Sléttuvegi er einnig sérstaklega glæsilegt mötuneyti og kaffihús sem þátttakendur í dagdvöl nýta sér.

Markmið dagdvalar er að viðhalda sjálfstæði einstaklingsins og rjúfa félagslega einangrun.  Vonin er að gott samstarf myndist milli dagdvalar og heimaþjónustu borgarinnar sem verði til að auka hagræði og þjónustu fyrir þá borgarbúa sem nýta sér dagdvölina.

Borgarstjóri rifjaði upp í sínu ávarpi að það var einmitt við vígslu hjúkrunarheimilis Hrafnistu í sama húsnæði 28. febrúar sl. sem hann og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heyrðu fyrst af fyrsta COVID-19 smitinu hér á landi. „Með ótrúlegu snarræði, skjótum viðbrögðum og af sérstakri fagmennsku tókst velferðarsviði Reykjavíkur, Hrafnistu og öðrum þeim sem reka þjónustu fyrir eldri borgara, að slá skjaldborg um sitt fólk og draga verulega úr allri smithættu,“ sagði borgarstjóri og færði starfsfólki þakkir fyrir.

Þó að fjölda gesta hafi verið stillt í hóf við opnun dagdvalarinnar er formleg opnun Rastar eitt af þeim skrefum sem leiða okkur frá tímum COVID-19 veirunnar og því ber að fagna.

Þess má að lokum geta að gert er ráð fyrir því að starfsemi í félagsstarfi fullorðinna hjá velferðarsviði og þar með talin dagdvöl í Þorraseli og á Vitatorgi verði komin í eðlilegt horf frá og með næstu mánaðarmótum.