Norðurlandamet í klámáhorfi

Atvinnumál Mannlíf

""

100 manns sóttu opinn fund um málefni #metoo sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Hér má nálgast allar kynningarnar frá fundinum.

Fundurinn var haldinn í tilefni af  því að nú stendur yfir árveknivika Reykjavíkurborgar undir yfirskriftinni Vinnum saman virðum mörk. Fjöldi áhugaverðra fyrirlesara var með erindi á fundinum sem var einnig streymt. Horfa á fundinn um #metoo.

Ragnhildur Ísaksdóttir, starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar, fór yfir stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, kynferðislegri- og kynbundinni áreitni og ofbeldi ásamt verkferlum þeim tengdum. Ennfremur kynnti Baldur Örn Arnarson, mannauðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs, niðurstöður er snúa að þessum þáttum í viðhorfskönnun starfsmanna Reykjavíkurborgar. 

Þá flutti Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnisstjóri jafnréttismála, mjög áhugavert erindi um áhrif klámvæðingar á samskipti kynjanna. Í máli hennar kom fram að íslensk­ir dreng­ir eigi Norður­landa­met í klámá­horfi og meðal­ald­ur ís­lenskra drengja er 11 ára þegar þeir byrja að horfa á klám. Marg­ir eru því mun yngri en 11 ára þegar þeir sjá klám í fyrsta skipti. 

Þorsteinn V. Einarsson, deildarstjóri í frístundamiðstöðinni Tjörnin hélt erindi um #karlmennskan. Hann sagði frá því hver upptökin voru að því að hann fór af stað með vitundarvakninguna á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #karlmennskan sem hefur vakið mikla athygli á vefnum í dag. 

Vinnumenning og kynjatengsl var umfjöllunarefni Finnborgar Salome Steinþórsdóttur sem er doktorsnemi í kynjafræði við Háskóla Íslands. Í erindi hennar kom meðal annars fram að #metoo endurspegli það að konur séu búnar að fá nóg og krefjist breytinga, en að aðalvandinn sé misrétti kynjanna. 

Staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaðnum. Nichole Leigh Mosty, verkefnastjóri á velferðarsviði. Hún segir að víða upplífi konur af erlendum uppruna að brotið sé á þeim. Þær verði fyrir einelti og oftar en ekki kynferðislegri og kynbundinni áreitni.