Njótum náttúru borgarinnar í sumar | Reykjavíkurborg

Njótum náttúru borgarinnar í sumar

fimmtudagur, 14. júní 2018

Lífríki borgarinnar skartar sínu fegursta á sumrin - gróðurinn dafnar og blómstrar, fuglarnir syngja, flugurnar suða og allir krókar og kimar iða af lífi. 

Til að fagna og vekja athygli á hinni fallegri náttúru í Reykjavík, verður boðið upp á á fjölbreytta og skemmtilega fræðsludagskrá í sumar í nafni fræðsluverkefnisins Reykjavík - iðandi af lífi.

 

  • Æðarbliki. Ljósmynd: Björn Ingvarsson
    Æðarbliki

Reykjavíkurborg mun bjóða upp á fjóra skemmtilega fræðslu- og upplifunarviðburði á næstu vikum. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis en boðið verður upp á leiðsögn og fræðslu.

Viðburðirnir fjórir eru:

* DAGUR HINNA VILLTU BLÓMA                   
Sunnudagur 17. júní kl. 10 - Ægisíða.
              
Dagur hinna villtu blóma er haldinn árlega víða um land. Þar læra gestir að þekkja helstu plöntutegundir sem finnast. Að þessu sinni verður það strandlengjan við Ægisíðu í Vesturbæ Reykjavíkur sem verður skoðuð. Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur og Snorri Sigurðsson líffræðingur verða með leiðsögn. Hist er við leikskólann Sæborg.
Í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur.

* AÐ ELSKA NÁTTÚRUNA                   
Sunnudagur 24. júní kl. 20 - Elliðaárdalur.

Hvernig lærum við að elska náttúruna? Verkefnið okkar er að rækta sambandið við náttúruna og lífið á jörðinni í heild. Gildi náttúrunnar mótast ekki aðeins af sjónarhorni mannverunnar heldur alls sem lifir og hrærist á landi, hafi, sjó og lofti. Gunnar Hersveinn heimspekingur leiðir náttúrustund í Elliðaárdal og flytur hugvekju og gestir eru hvattir til að taka þátt. Dásamleg stund á Jónsmessukvöldi.
Hist við Rafveituheimilið í Elliðaárdal.              
    
* FUGLAPARADÍS VIÐ ELLIÐAVATN                   
Laugardagur 30. júní kl. 13 - Elliðavatn  
              

Fuglalífið í borginni er fjölbreytt og fangar hugann. Við Elliðavatn dvelja margar tegundir fugla þar á meðal áhugaverðir vatnafuglar eins og flórgoði og himbrimi. Svæðið er því tilvalið til fuglaskoðunar. Snorri Sigurðsson líffræðingur stýrir. Hist við Elliðavatnsbæinn.

* HIN VILLTA VIÐEY                               
Sunnudagur 8. júlí kl. 13:30 - Viðey
                             

Að heimsækja Viðey nærir líkama og sál. Þar er mikil náttúrufegurð og auðugt lífríki og áhugavert samspil manns og náttúru hefur mótað sérkenni staðarins. Snorri Sigurðsson líffræðingur leiðir göngu um eyjuna og fræðir gesti um það sem fyrir augu ber. Ferjuferðir frá Skarfabakka eru t.d. kl 12:15 og 13:15. Gangan hefst við Viðeyjarstofu. Í samstarfi við Borgarsögusafn.

Reykjavík – iðandi af lífi er fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni borgarinnar og er á vegum umhverfis – og skipulagssviðs Reykjavíkur. Boðið eru upp á reglulega fræðsluviðburði og einnig er unnið fræðsluefni t.d. bæklingar og fræðsluskilti. Umsjónarmaður fræðsluátaksins er Snorri Sigurðsson, líffræðingur (snorri.sigurdsson@reykjavik.is).

Fræðsludagskrána fyrir sumarið 2018 má nálgast hér. Þá má benda á facebook-síðuna þar sem reglulega birtist fróðleikur um lífríkið í borginni sem og allar upplýsingar um viðburði.