Níu milljarða afgangur af rekstri borgarinnar

Fjármál

""

Hálfs árs uppgjör Reykjavíkurborgar sýnir sterkan rekstur en það var lagt fram í borgarráði í morgun. 

  • Rekstur A-hluta jákvæður um tæpa fjóra milljarða

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar - júní 2018 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 30. ágúst.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 3.735 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 1.788 mkr á tímabilinu. Niðurstaðan er því 1.947 mkr betri en gert var ráð fyrir.  Betri rekstrarniðurstaða skýrist einkum af hærri tekjum af sölu byggingarréttar, sem var 2.113 mkr umfram áætlun.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 4.564 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.528 mkr eða 2.036 mkr umfram áætlun.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um 9.146 mkr en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 9.261 mkr.

,,Niðurstaðan sýnir sterkan rekstur borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar. Við erum á mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar og fjárfestingar borgarinnar mjög miklar, í stóru og smáu. Við erum að bjóða upp á ókeypis námsgögn í fyrsta sinn, höfum aldrei malbikað eins mikið og núna og erum að byggja skóla og íþróttamannvirki víða í borginni. Um leið og við erum sækja fram á öllum sviðum, þá erum við að skila þessari sterku rekstrarniðurstöðu fyrstu sex mánuði ársins,” segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Helstu frávik frá áætlun samstæðu má rekja til lægri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða, og hærri fjármagnsgjalda samstæðunnar vegna gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 15.854 mkr sem er 2.907 mkr betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Eigið fé fer hækkandi

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 597.871 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 301.565 mkr. Skuldir Orkuveitunnar vega þar þyngst.. Eigið fé var 296.306 mkr en þar af var hlutdeild meðeigenda 15.924 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar fer hækkandi og er nú 49,6% en var 49,0% um síðustu áramót.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf.

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - júní 2018

Skýrsla fjármálaskrifstofu með árshlutareikningi 2018