Niðurstöður úr stærðfræðiskimun í 3. bekk

Skóli og frístund

""

Um 95% nemenda í 3. bekk í 36 skólum í borginni tóku þátt í stærðfræðiskimuninni Talnalykli sem lögð var fyrir haustið 2017. Markmið hennar er að finna þá nemendur sem eru líklegir til að lenda í vanda í stærðfræðinámi og bregðast fljótt við með sérstökum stuðningi.

Niðurstöðurnar sýna að um 73% nemenda náðu settu viðmiði í þrepi I  og þurfa því að öllum líkindum ekki á sérstökum stuðningi að halda. Þetta hlutfall er hið sama og var í skimuninni haustið 2016 en hærra hlutfall en var haustið 2015.

Um 17% nemenda náðu settu viðmiði í þrepi II og teljast því ekki heldur í mikilli áhættu hvað varðar námsörðugleika í stærðfræði.

Um 10% nemenda fóru í gegnum öll þrjú þrepin sem er álíka stór hópur og á undanförnum árum.

Rúmlega helmingur þeirra sem fóru í þrep III telst þurfa á sérstökum stuðningi að halda í stærðfræði. Þessi hópur jafngildir 5,7% af öllum nemendahópnum sem tók þátt í skimuninni. Hlutfallið nú er hálfu prósentustigi hærra en það var árið 2016 en lægra en það var árið 2015. Hlutfall drengja og stúlkna sem þurfa sérstakan stuðning er jafn hátt.

Rúm 94% nemenda í 3. bekk haustið 2017 teljast samkvæmt þessu ólíkleg til að þurfa sérstakan stuðning í stærðfræði. Mismunandi er eftir skólum hve margir nemenda eru líklegir til að þurfa á sérstökum stuðningi í stærðfræði að halda, allt frá engum nemanda upp í 18%.