Náttúrumiðaðar lausnir á norðurslóðum

Garðyrkja Umhverfi

Villt kúmen í Viðey. Mynd/Magnus Göransson
Villt kúmen í Viðey.

Grasagarður Reykjavíkur hefur fengið styrk úr sjóð norrænu ráðherranefndarinnar fyrir náttúrumiðaðar lausnir á norðurslóðum. Verkefnið fjallar um villtar plöntur náskyldar landbúnaðarplöntum eða svokallaðar villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplanta. Verkefnið verður unnið á næstu þremur árum og fékkst styrkur til að skilgreina þessar tegundir á Íslandi, kanna útbreiðslu þeirra í Reykjavík og huga að umhirðu og verndun þeirra. Styrkurinn er upp á 12 milljónir króna. Sýning um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna verður uppi í Grasagarðinum til 6. júní.

Mat- og fóðurjurtir eru undirstöður matvælaframleiðslu á heimsvísu. Með áframhaldandi loftslagsbreytingum breytast skilyrði alls landbúnaðar og til að mæta þessum breytingum mun verða þörf á nýjum eiginleikum hjá ræktuðum nytjaplöntum.

Náinn skyldleiki landbúnaðarplantna og ýmissa villtra tegunda gerir það mögulegt að kynbæta eftirsótta eiginleika inn í landbúnaðarplönturnar. Þannig er hægt að kynbæta og aðlaga ræktunarafbrigði að breyttum skilyrðum og neytendakröfum.

Skemmtileg dagskrá í Grasagarðinum í sumar

Næsti viðburður í Grasagarðinum verður á alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí klukkan 20. Þá mun Magnus Göransson,  sérfræðingur á sviði plöntukynbóta, kynna fyrrnefnt verkefni um villtar nytjaplöntu.

Af fleiri spennandi viðburðum má nefna fuglaskoðun á degi líffræðilegrar fjölbreytni þann 22. maí, viðburðinn „Hollráð í matjurtagarðinum“ þann 7. júní og opnun á gönguleiðinni „Litlir landkönnuðir“ í samstarfi við sænska sendiráðið, sem verður einnig á dagskrá í júní.

Einnig verða hinar hefðbundnu fræðslugöngur á sínum stað í sumar, einnig listasmiðjur, ráðstefnur og fleira.