Náttúru- og umhverfisverðlaun mikill heiður fyrir borgina

""

Reykjavíkurborg hlaut í gær Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2014. Í ár voru þau veitt sveitarfélagi, borg eða staðbundnu samfélagi sem hefur í starfsemi sinni lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er að vonum ánægður með verðlaunin. „Það voru margir mjög frambærilegir aðilar tilnefndir þannig að þetta er mikill heiður fyrir borgina að hljóta verðlaunin. Ég vil þakka öllum, bæði grasrótarsamtökum, áhugafólki og auðvitað okkar góða starfsfólki, sem hefur unnið að þessu mjög lengi. Þetta er uppskera af margra ára hugsjónastarfi.”

Markvissar aðgerðir í umhverfismálum
Verðlaunaféð er 350 þúsund danskar krónur eða rúmar 7.2 milljónir krónur.
Reykjavíkurborg fékk verðlaunin fyrir markvissar aðgerðir sveitarfélagsins í umhverfismálum. Tekið er fram í áliti dómnefndar að aðgerðirnar séu sérsniðnar fyrir borgina og séu öðrum sveitarfélögum fyrirmynd um hvernig hægt sé að vinna að bættara umhverfi.
Ákvörðun um tilnefningar er tekin af norrænni dómnefnd sem er skipuð 13 einstaklingum, tveimur frá hverju norrænu ríkjanna og einum frá Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum.

Vísað er til nokkurra málaflokka í áliti dómnefndarinnar t.d. á sviði vatns- og loftgæða, úrgangs- og endurvinnslu, opinna svæða, náttúrufræðslu m.a. í Grasagarði Reykjavíkur, líffræðilegri fjölbreytni, loftslagsmála, samgangna og þeirra fjölmörgu umhverfisþátta sem fram koma í aðalskipulagi Reykjavíkur.
 

Álit dómnefndar

Í áliti dómnefndar segir: „Reykjavík hefur náð jákvæðum árangri á nokkrum sviðum. Landfræðileg lega borgarinnar hefur hjálpað til, en mest um vert er áhrifamikil og markviss vinna sveitarfélagsins í umhverfismálum.

Í gegnum árin, hefur Reykjavíkurborg þróað umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita. Borgin hefur einnig haft þá stefnu að nota svæði sem ekki eru nýtt til annars, eða þar sem á að byggja síðar, í „grænum“ tilgangi fyrir borgarbúa og koma þannig í veg fyrir að þau verði gerð að bílastæðum. Þó að Reykjavík sé lítil borg þá ganga 87% ökutækja í eigu borgarinnar fyrir rafmagni eða gasi. Ekki er vitað um annað sveitarfélag sem hefur yfir eins stórum flota af umhverfisvænum ökutækjum að ráða.

Sveitarfélagið hefur um langt skeið átt í samstarfi um eftirlit og verndun vatnsbóla og er nú eina höfuðborg Norðurlanda sem nýtur þeirra forréttinda að geta veitt ómeðhöndluðu drykkjarvatni inn á heimili borgarbúa.

Vegna þessa víðtæka umhverfisstarfs sem sveitarfélagið innir af hendi með langtímasjónarmið að leiðarljósi, markvissri vinnu með umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita er Reykjavíkurborg verðugur handhafi Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014.“

Fjölbreytt vinna að umhverfismálum
Vísað er til markvissrar vinnu borgarinnar á mörgum sviðum umhverfismála, t.d. hjólreiðaáætlunar en á sl. þremur árum hafa hjólastígar í borginni lengst um meira en helming, vinnu við torg í biðstöðu og sumargötur og þeirrar stefnu borgaryfirvalda að skapa borg fyrir fólk.
Vöktun og umhirða grænna svæða og útivistarsvæða sem borgin sér um að vakta og vernda, t.d. Laugardals, Elliðaárdals, Fossvogs, Ægissíðu, Bláfánastrandarinnar Nauthólsvík, Viðeyjar  og annarra strandsvæða er mikilvægur þáttur í umhverfisstarfi borgarinnar, svo og fræðsla um loftgæði og notkun nagladekkja sem hefur minnkað jafnt og þétt. Notkun nagladekkja hefur t.d. minnkað úr 67% í 32% á sl. 10 árum.

Mikilvægur þáttur er verndun Elliðaánna en sú staðreynd að Reykjavík eigi góða laxveiðiá í miðri borg og aðeins fimm kílómetra frá miðborgarkjarna er einstakt.

Í endurvinnslumálum hefur einnig tekist vel til en stöðug aukning hefur verið í pappírsflokkun síðan blátunnuvæðing Reykjavíkurborgar hófst. Bláum tunnum undir pappír og pappa fjölgaði um 176% árið 2013 og magnið jókst um helming, fór úr 80 í 160 tonn. Að sama skapi hefur sorp frá borgarbúum sem urðað er minnkað jafnt og þétt.
Reykjavíkurborg hefur þegar sett sér markmið varðandi frekari endurvinnslu en ráðgert er að ná 80% af pappír og pappa, 60% af plasti og öllu lífrænu efni úr sorpi fyrir árið 2020.

Þá hefur Reykjavíkurborg tekið upp græna stefnu á starfsstöðum sínum sem heitir Græn skref.

Verðlaunin hvetja til dáða
Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, tók við verðlaununum í Osló í gær og sagði þau vera kærkomna staðfestingu á því að Reykjavíkurborg sé á réttri leið. „Við erum svo lánsöm að búa við bestu mögulegu náttúrlegu aðstæður til sjálfbærni og sýnum ábyrgð hvað varðar stefnumótun í umhverfismálum til framtíðar. Verðlaunin hvetja okkur til dáða og við munum halda áfram okkar starfi í þágu bætts umhverfis í þágu Reykjavíkur og borgarbúa,“ sagði Ólöf.
Nánari upplýsingar um verðlaunin og verðlaunaafhendinguna er að finna á vefsíðunni www.norden.org.

Umsókn Reykjavíkurborgar um Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014.