Námskeið í fjórum hlutum um líf og list Ásmundar Sveinssonar

Mannlíf Menning og listir

""

Listleikni: Ásmundur Sveinsson – List fyrir fólkið

Námskeiðið veitir innsýn í listferil Ásmundar Sveinssonar. Hann var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og einn þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir um myndlist 20. aldar. 

Námskeið í fjórum hlutum um líf og list Ásmundar Sveinssonar, laugardagana 7., 14., 21. og 28. apríl kl. 11-12.30 í Ásmundarsafni. Námskeiðið er haldið í tengslum við sýninguna List fyrir fólkið í Ásmundarsafni.

Fyrirlesarar eru Kristín Guðnadóttir listfræðingur, Eiríkur Þorláksson listfræðingur, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Hjálmar Sveinsson, heimspekingur og borgarfulltrúi.

Námskeiðið veitir innsýn í listferil Ásmundar Sveinssonar. Hann var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og einn þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir um myndlist 20. aldar. Ásmundur sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú en samfélagið og tækniframfarir 20. aldar voru honum einnig ríkuleg uppspretta hugmynda. Verk Ásmundar eru á opinberum stöðum víða um land og setja svip sinn á Reykjavík. Það er í anda þeirra afstöðu Ásmundar að listin eigi að vera úti á meðal fólksins og hluti af daglegur lífi.

Námskeiðið byggir á rannsóknavinnu sem unnin var í tengslum við útgáfu bókar um Ásmund Sveinsson sem Listasafn Reykjavíkur gaf út 2017. Ólíkir þættir í lífi og listferli Ásmundar verða til umfjöllunar á námskeiðinu.

Námskeiðið er haldið á laugardagsmorgnum í apríl kl. 11.00 í Ásmundarsafni við Sigtún.

Smellið hér til að skrá á námskeiðið

7. apríl
Kristín Guðnadóttir
listfræðingur fjallar ýtarlega um líf og feril Ásmundar Sveinsonar. Tekin vera fyrir ákveðin tímabil í list Ásmundar, persónulegir hagir hans sem og samfélagslegir þættir sem höfðu áhrif á þróun listar hans.

14. apríl
Eiríkur Þorláksson
listfræðingur fjallar um alþjóðleg áhrif í myndlist Ásmundar Sveinssonar. Höggmyndir Ásmundar eru tengdar almennri þróun evrópskrar höggmyndalistar á 20. öld, einkum þegar kemur að hinum formlegu þáttum þeirrar þróunar, og því er vert að setja verk hans í alþjóðlegt samhengi.

21. apríl
Pétur H. Ármannsson
arkitekt fjallar um hús Ásmundar Sveinssonar við Freyjugötu og Sigtún. Áhuga Ásmundar á húsagerð og listrænni mótun borgarumhverfis má rekja til námsára hans við Sænsku listakademíuna í Stokkhólmi.

28. apríl
Hjálmar Sveinsson
, heimspekingur og borgarfulltrúi, fjallar um list Ásmundar Sveinssonar í almenningsrými. Ásmundur vildi hafa verk sín úti í borgarrýminu svo að borgarbúar gætu notið þeirra í sínu hversdagslega lífi. Hvaða hlutverki gegna útilistaverk í borginni? Hvers konar listar þarfnast samfélagið? 

Greiða þarf námskeiðagjöld viku áður en námskeið hefjast til þess að staðfesta þátttöku.

Þátttökugjald er 12.000 kr. 

Námskeiðið er niðurgreitt af flestum stéttarfélögum. Námsmenn, eldri borgarar og öryrkjar fá afslátt ásamt handhöfum Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Listleikni eru heiti námskeiða sem Listasafn Reykjavíkur heldur fyrir fólk á öllum aldri. Í boði er fræðsla um myndlist og þjálfun í ýmsum verklegum og skapandi þáttum.