Nágrannavarsla

Nágrannavarsla er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og íbúa og gengur út á það að íbúar taka höndum saman í forvarnaskyni. Nágrannavarsla er ein leið til að hindra innbrot og eignatjón. Meginmarkmið nágrannavörslu er að halda afbrotum frá viðkomandi götu/hverfi auk þess sem það tengir fólk saman og myndar þar með öruggara og ánægjulegra nágrenni. Í nágrannavörslu felst hlutverk íbúa í því að vera „augu og eyru“ götunnar/hverfisins. Nágrannavarsla gengur þó ekki eingöngu út á það að vernda eigur fólks heldur líka að líta eftir íbúum götunnar/hverfissins. Það má gera með því t.d. að líða ekki einelti, hvort heldur er meðal barna eða fullorðinna, og láta vita af eftirlitslausum partýum, þ.e.a.s. þegar enginn fullorðinn er á staðnum.
Góður granni hefur auga með grunsamlegum bíla- og mannaferðum við húsin í kringum sig, sér um að passa upp á að póstur safnist ekki upp í bréfalúgu, setur sorp í ruslatunnur nágrannans þegar farið er í burtu í lengri tíma og leggur jafnvel bílnum sínum í innkeyrslu nágrannans. Þá er gott ráð þegar snjór er yfir að gengið sé upp að húsi nágrannans og látið líta út sem einhver umferð sé inn í húsið.
Nágrannavarsla hefur fyrir löngu sannað sig sem mikilvægur hlekkur í að fækka glæpum og þá sérstaklega innbrotum á heimili, í bíla og almennum þjófnaði á eigum fólks. Þar sem nágrannavarsla er virk hefur skemmdarverkum einnig fækkað.
Flest innbrot eiga sér stað að nóttu til þegar enginn er heima og nágrannar sofandi eða yfir daginn þegar allir eru í vinnu eða skóla. Það hefur líka færst í vöxt að verðmætum sé stolið þegar einhver er heima yfir daginn og útidyr, svalir eða garðdyr eru opnar.
Mikilvægt er að heimilið sé vel upplýst að utan og gott er að tengja lýsingu við hreyfiskynjara þar sem hægt er, sérstaklega á svæðum þar sem gróður skyggir á. Mikilvægt er að útidyr og bakdyr séu alltaf læstar, líka þegar einhver er heima. Dæmi eru um að þjófar hafi læðst inn í anddyri húsa og tekið veski, síma eða bíllykla sem oft eru geymd í anddyri húsa. Mælt er með því að fá nágranna til að geyma aukalykla frekar en að geyma þá undir mottu eða í blómapotti við hús sitt. Bréfalúgur er best að staðsetja þannig að ekki sé hægt að fara með handlegg þar inn og teygja sig í hurðarlás til að opna.
Þegar fólk hyggur á ferðalög er mikilvægt að hafa í huga að verðmæti liggi ekki á glámbekk. Ekki skilja fartölvur, myndavélar eða annað slíkt eftir þannig að það sjáist vel utan frá úr glugga, hvort heldur er á heimili eða í bílum sem skildir eru eftir. Ef ætlunin er að fara burt í lengri tíma er gott ráð að fá nágranna sinn til að líta eftir húsinu. Láta viðkomandi vita hvaða einstaklingar eru líklegir til að sjást við húsið og gefa upp lýsingu og jafnvel bílnúmer viðkomandi. Það auðveldar nágrannanum að gera sér grein fyrir ferðum ókunnugra við húsið.
Þegar farið er í burtu, yfir lengri eða skemmri tíma, er mikilvægt að hafa í huga að gefa ekki upp á símsvara eða facebook/bloggsíðum að verið sé að fara í ferðalag. Gott er að stilla heimasímann þannig að hringingar í hann færist yfir í farsímann.
Þeim sem vilja taka upp nágrannavörslu er bent á að hafa samband við Heru Hallberu hjá Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, í síma 411 1400 eða í gegnum netfangið hera.hallbera.bjornsdottir@reykjavik.is.