Nagladekk eru ekki góður kostur í Reykjavík

Samgöngur Umhverfi

""

Reykjavíkurborg hvetur eigendur bifreiða að velja góð vetrardekk eða heilsársdekk fremur en nagladekk. Kosti þess vals má telja upp út frá mörgum sjónarhornum.

Nagladekk hafa verið ofmetin í borgum og mörg dæmi eru um að borgaryfirvöld banni slík dekk eða leggi sérstakt gjald á þau. Það er aftur á móti ekki leyfilegt samkvæmt umferðarlögum á Íslandi.

Ónegld vetrardekk með hæstu einkunn

Í vetrardekkjakönnun 2021 sem unnin er af NAF systurfélagi FÍB í Noregi kemur fram að ónegld vetrardekk eru algjörlega fullgildur kostur með tilliti til aksturseiginleika, hraða (grip), hemlunar, hávaða, rásfestu og aksturstilfinningar. Ein tegund af naglalausum dekkjum (Continental Viking- Contact 7) fær til dæmis hæstu heildareinkunn allra dekkja, negldra og ónegldra, og er með 91 stig í könnuninni.

Nagladekk hættulegt öryggistæki?

Margar lífsseigar mýtur eru til um gildi nagladekkja umfram góðra vetrardekkja. Ágústa Þóra Jónsdóttir varaformaður Landverndar skrifaði um nokkrar þeirra um daginn á visir.is. Þar segir meðal annars:

  • Nýjar rannsóknir segja okkur að nagladekk eru ekki nauðsynleg, þar sem bylting hefur orðið í gæðum vetrarhjólbarða og staðalbúnaði bifreiða sem gerir akstur í hálku öruggari en áður.
  • Aðrar rannsóknir sýna skýrt að þau eru alls ekki æskileg – heldur beinlínis skaðleg – þar sem þau eru langstærsti orsakavaldur loftmengunar sem leiðir til ótímabærs dauða fjölda Íslendinga.
  • Bifreiðar sem ekið er á negldum dekkjum eru langstærsti orsakavaldur svifryksmengunar á höfuðborgarsvæðinu.
  • Áhrif svifryksmengunar eru lúmsk og hún veldur meðal annars aukinni tíðni innlagna á sjúkrahús og koma á bráðamóttöku, og aukinni dánartíðni.
  • Veljum ónegld og góð dekk þegar við kaupum ný. Þannig bætum við lífsgæði allra sem anda að sér lofti.

Nagladekk valda svifryksmengun

Í skýrslu sem unnin var af Brian C. Barr við jarðvísindadeild Háskóla Íslands er ein af niðurstöðunum að verulega þurfi að draga úr nagladekkjanotkun. Næmnigreining gefur til kynna að nagladekkjanotkun sé lang veigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu (Vegagerðin).

Nagladekk slíta vegum 20–30 falt hraðar

Lækkun hraða gæti skapað allt að 40% samdrátt í magni svifryks ef keyrt yrði á 30 km hraða í stað 50 km. Nagladekk slíta vegum 20–30 falt hraðar en ónegld dekk. Þetta kemur fram í rannsókn Þrastar Þorsteinssonar prófessors í umhverfis- og auðlindafræði og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, um áhrif hraða á mengun vegna umferðar. Niðurstöðurnar sýna að með því að draga úr umferðarhraða mætti um leið draga töluvert úr framleiðslu svifryks og þar með sliti gatna.

Góð vetrarþjónusta

Reykjavíkurborg leggur auk þess metnað sinn í að þjónusta götur borgarinnar vel. Vetrarþjónusta í Reykjavík felst í því að meta aðstæður allan sólarhringinn frá því nóvember til loka mars. Starfsfólk Reykjavíkurborgar og verktakar á vegum borgarinnar eru ræstir út þegar aðstæður kalla á viðbrögð. Veljum grip við hæfi.