Myndlistarsýning | Surtsey - Ég er náttúra | Reykjavíkurborg

Myndlistarsýning | Surtsey - Ég er náttúra

miðvikudagur, 3. október 2018

Næstkomandi föstudag, 5. október opnar skemmtileg listasýning þar sem lífríki og jarðfræði er fléttað saman í menningarhúsinu Spönginni.

  • Listaverk eftir Þórunni Báru myndlistarkonu
    Listaverk eftir Þórunni Báru myndlistarkonu

Verkin á sýningunni eru gerð á árinu 2018 og hafa tilvísun í rannsóknir á þróun lífríkis og jarðfræði í Surtsey en Þórunn Bára hefur unnið með þann efnivið síðastliðinn áratug.

Þórunn Bára vinnur með náttúruskynjun og trúir því að skynreynsla sé vannýtt leið að gagnrýnni hugsun og ábyrgð einstaklings á umhverfi og eigin lífi, sem gæti dregið úr firringu og orðið hvati til góðra verka. Hún vinnur stór litrík verk með óræðum formum í þeirri trú að það stöðvi tímann eitt augnablik og dragi úr streitu í innra samtali manns við hversdagslega náttúru. Þórunn Bára leitar að undirliggjandi  formgerð í óreiðu lifandi náttúru sem hún túlkar með óhlutbundnu og hlutbundnu myndmáli. 

Verkin vinnur Þórunn Bára í seríum og eru þau hluti af heildarverki, nokkurskonar sjónrænni skráningu á lífríki Surtseyjar.

Þórunn Bára lauk prófi í málun og teikningu frá Listaháskólanum í Edinborg og mastersprófi í listum frá Wesleyan háskóla í Bandaríkunum. Þórunn Bára er nú sjálfstætt starfandi myndlistarmaður í Reykjavík og má kynnast verkum hennar á vefsíðunni. Verk hennar eru sýnd og til sölu á Gallerí Fold en einnig má nálgast verk á vinnustofu hennar.