Munir úr rústum Hiroshimaborgar gefnir Reykjavíkurborg

Menning og listir

""

Fulltrúar Háskólans í Hiroshima og japanska sendiráðsins á Íslandi afhentu í dag Reykjavíkurborg muni sem fundust í rústum Hiroshimaborgar eftir að kjarnorkusprengjunni var varpað á borgina í ágúst árið 1945.

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, tók við mununum við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Yasuhiko Kitagawa sendiherra Japans á Íslandi og Rebun Kayo, alþjóðafulltrúi háskólans í Hiroshima afhentu gripina formlega og sögðu stuttlega frá því hvað um var að ræða. Annars vegar er um að ræða tvö brot úr vegg Genbaku dómkirkjunnar sem gjöreyðilagðist við sprenginguna og bráðið gler sem sýnir hversu gríðarlegur hiti fylgdi sprengingunni. 

Með gjöfinni vill Háskóli Hiroshima minnast þeirra sem létust í sprengingunni, auka skilning umheimsins á alvarlegum afleiðingum notkunar kjarnorkuvopna og nauðsyn þess að leggja bann við notkun þeirra. Þá er einnig tilgangur gjafarinnar að þakka Reykjavíkurborg og friðarsamtökum í borginni fyrir þeirra baráttu fyrir kjarnorkuvopnalausum heimi.

Munirnir verða varðveittir í Höfða.