Mögnuð dagskrá á opnun Barnamenningarhátíðar í Reykjavík | Reykjavíkurborg

Mögnuð dagskrá á opnun Barnamenningarhátíðar í Reykjavík

mánudagur, 16. apríl 2018

Á  opnunardegi Barnamenningarhátíðar í Reykjavíkur í Hörpu var gleðin við völd. Barnamenningin kraumaði þegar Eldborgarsalurinn fylltist fimm sinnum af börnum yfir daginn og Silfurbergið einu sinni.

 • Líf og fjör við setningu Barnamenningarhátíðar
  Líf og fjör við setningu Barnamenningarhátíðar
 • Dagur B. Eggertsson setur Barnamenningarhátíð
  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur Barnamenningarhátíð ásamt 4. bekkingum í grunnskólum borgarinnar.
 • Sungið með í laginu Ostapopp - lagi barnamenningarhátíðar að þessu sinni
  Sungið með í laginu Ostapopp - lagi barnamenningarhátíðar að þessu sinni, en lagið var samið í samstarfi við 4. bekkinga í grunnskólum borgarinnar.
 • Steiney Skúladóttir syngur Ostapopp með salnum.
  Steiney Skúladóttir syngur Ostapopp með salnum.
 • leikskólabörnin syngja af innlifun
  Hátt í átta hundruð leikskólabörn tóku þátt í tónleikunum; Hvað er þetta? hver er hér? þar sem flutt voru leikhúslög eftir íslenskar konur.
 • íslenski dansflokkurinn skemmtir leikskólabörnunum.
  Dansarar í Íslenska dansflokknum skemmtu leikskólabörnunum í Hörpu þegar börnin sungu inn Barnamenningarhátíð.
 • Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2018
  Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2018

Opnunarviðburður Barnamenningarhátíðar fór fram tvisvar sinnum í dag og er það í fyrsta sinn vegna þess mikla fjölda barna sem fædd eru árið 2008. Öllum fjórðu bekkingum í Reykjavík var boðið á opnunarviðburðinn klukkan 9.45 og klukkan 11.30. Mikið var um dýrðir í Eldborgarsalnum á opnunarhátíðinni þar sem m.a. lagið Ostapopp sem samið var í samstarfi við 4. bekkinga í grunnskólunum var flutt af þeim Steinunni, Steiney og Dísu. Þá var dansað og hoppað, teknar nokkrar bylgjur og horft í andakt á loftfimleika félaga í Sirkusi Íslands. Eftir hádegi tóku svo leikskólabörnin við og sungu inn hátíðina með stórskemmtilegum leikhúslögum eftir íslenskar konur. Velkomin á Barnamenningarhátíð! barnamenningarhatid.is

Dagskrá:

 • Lúðrablásarar blása til hátíðarinnar með La Peri eftir Dukas
 • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina með börnunum í salnum
 • Strákar úr Listdansskóla Íslands dansa um stríð og frið  
 • Danshópur Brynju Pétursdóttir beislar orkuna í kraftmiklum dansi
 • Fulltrúar verkefnisins Rímur og Rapp, lög unga fólksins í 100 ár, heilsa upp á salinn
 • Steinunn, Steiney og Dísa flytja lagið Ostapopp með krökkunum í salnum
 • Sirkus Íslands sýnir sirkuslistir
 • JóiP og Króli syngja til fjórðu bekkinga
 • Kynnir viðburðarins er Sigyn Blöndal fjölmiðlakona

Þennan sama dag eru fleiri stórviðburðir í Hörpu sem ykkur er líka sérstaklega boðið á:

Kl. 14.00 er viðburður Tónskóla Sigursveins þar sem reykvísk leikskólabörn syngja íslensk leikhúslög eftir kventónskáld. Eldborg

Kl. 17.00 Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna. Fagfólk flytur frumsamin lög eftir börn á aldrinum 10 – 15 ára. Silfurberg

Kl. 19.30 . Listdanssýning Félags íslenskra listdansara, FÍLD. Börn á aldrinum 4 – 18 ára dansa á stóra sviðinu. Eldborg

Dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík