Minnkum plastnotkun og drögum úr úrgangi

Umhverfi

""

Árvekniátakið Plastlaus september stendur nú yfir. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka notkunina. Reykjavíkurborg styrkir Plastlausan september.

Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í hafinu. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til og eyðist ekki, fyrir utan það plast sem hefur endað í sorpbrennslu. Plastið brotnar niður í örplast en áhrif þess á lífríki eru ekki að fullu þekkt.

Plastlaus september hvetur okkur til að nota minna af einnota plasti og velja vörur úr öðru hráefni þegar því er komið við. Átakið snýst ekki um að vera fullkomlega plastlaus í september heldur að finna sér markmið í mánuðinum til að minnka neyslu á einnota plastumbúðum.

Hlutfall plasts 15% af innihaldi grátunnunnar

Niðurstöður rannsókna Sorpu á samsetningu húsasorps sýna að á árinu 2019 var hlutfall plasts tæp 15% af innihaldi grátunnunnar, eða sem nemur um 23 kg af plasti á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Hlutfall plasts í grátunnu hefur dregist saman undanfarin ár, eða um tæp 4% frá árinu 2016, sem er samdráttur upp á rúmlega 5 kg á hvern íbúa.

Græn tunna fyrir plast

Íbúar í Reykjavík geta valið að skila flokkuðu plasti á eina af 58 grenndarstöðvum í borginni, en íbúar geta einnig óskað eftir því að fá græna tunnu undir plast.  Á árinu 2019 var safnað alls  583 tonnum af plasti, eða 4,5 kg á hvern íbúa Reykjavíkur.

Með því að velja plastlausa valkosti þegar það er hægt er hægt að ná miklum árangri við að minnka úrgang frá heimilum. Með því að flokka plast og skila á grenndarstöðvar eða í græntunnu er hægt að lækka sorphirðukostnað heimila með því að fækka grátunnum eða minnka þær.

Upplýsingar um sorptunnur í Reykjavík er hægt að sjá á ekkirusl.is og þar er hægt að panta tunnur undir endurvinnsluefni.

Hér er að finna upplýsingar um grenndarstöðvar.

Hér má lesa nánar um Plastlausan september.

Hér má lesa svör við algengum spurningum um plast.