Milljónum óska um frið varpað út í alheiminn samfara tendrun Friðarsúlu-Yoko Ono ávarpar gesti beint frá Höfða

föstudagur, 6. október 2017

Friðarsúlan í Viðey verður tendruð í 11. sinn með friðsælli athöfn á fæðingardegi Johns Lennons mánudaginn 9. október klukkan 21.00 og verður kveikt á henni til 8. desember sem er dánardagur hans. Yoko Ono  ávarpar gesti í Viðey í beinni útsendingu frá Höfða fyrir tendrunina.

  • Óskatré Yoko Ono í Ráðhúsi Reykjavíkur, ljósmyndari BEB
    Óskatré Yoko Ono í Ráðhúsi Reykjavíkur, ljósmyndari BEB
  • Yoko Ono og Sean Lennona á friðarathöfn á síðasta ári, ljósmyndari BEB
    Yoko Ono og Sean Lennona á friðarathöfn á síðasta ári, ljósmyndari BEB

Friðarsúlan í Viðey verður tendruð í 11. sinn með friðsælli athöfn á fæðingardegi Johns Lennons mánudaginn 9. október klukkan 21.00 og verður kveikt á henni til 8. desember sem er dánardagur hans. Yoko Ono  ávarpar gesti í Viðey í beinni útsendingu frá Höfða fyrir tendrunina.

Í tengslum við tendrunina hefur óskatrjám Yoko Ono verið komið fyrir í Listasafni Reykjavíkur, (Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni), Viðeyjarnausti, Viðeyjarstofu og í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Yoko Ono hefur sett þar textann: ,,Óskaðu þér, skrifaðu óskina niður og settu á tréð, vertu viss um að óskin rætist“. Óskatrén hafa verið hluti af tendruninni og hafa yfir milljón óskir skilað sér á trén. Allar óskir eru skrifaðar niður, settar á disk og varpað upp í Friðarsúluna.

Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Graduale Nobili, Sóley Stefánsdóttir, Svavar Knútur og Valur Freyr Einarsson halda úti dagskrá í Viðey sem hefst kl. 18.30 og stendur til kl. 22.30.  Veitingasala verður í Viðeyjarnausti og Viðeyjarstofu frá kl. 17. Yoko Ono býður upp á fríar siglingar yfir sundið. Þá verða á fríar  strætóferðir í kringum tendrunina.

Yoko Ono segir um heimsókn sína til landsins í tengslum við tendrunina:

,,Ísland er afar andlegur staður, ég skynja svo mikla orku þegar ég heimsæki landið. Í hraða nútíma samfélags er svo auðvelt að gleyma ást, friði, skilningi og orkunni í náttúrunni. Á Íslandi, sérstaklega í Viðey er hins vegar auðveldara að muna eftir hvað þetta er mikilvægt fyrir okkur öll og jörðina okkar. John hefði elskað það.“

Fiðarsúlan

Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey árið 2007 til að heiðra minningu Johns Lennons. Friðarsúlan er tendruð árlega á fæðingardegi hans þann 9. október og lýsir til 8. desember sem er dánardagur hans. Listaverkið er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði. Friðarsúlan, er í formi óskabrunns en á hana eru grafin orðin „að hugsa sér frið“ á 24 tungumálum en enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon.