Mikilvæg sérfræðiþekking innan leikskólanna nýtt til að bæta innritunarferlið

Skóli og frístund

Frá vinnustofu stjórnenda leikskólanna í Hinu húsinu 14. desember
Stjórnendur leikskóla sitja í stórum sal á vinnustofu um innritunarferli í leikskóla. Jólaskreytingar í gluggum. Myndin er tekin ofan frá.

Nýtt innritunarferli í leikskóla Reykjavíkur er í vinnslu. Af því tilefni var haldin vinnustofa 14. desember í Hinu húsinu þar sem markmiðið var að skoða innritunarferli þeirra leikskóla sem reknir eru af Reykjavíkurborg. Vinnustofan er einn liður í því að fá innsýn starfsfólks sem kemur að því að innrita börn í leikskóla, en um 50 stjórnendur innan leikskóla borgarinnar tóku þátt í vinnustofunni.

Þátttakendur tóku virkan þátt í að greina núverandi ferli og komu með mikilvæga sérfræðiþekkingu að borðinu enda mynduðust fljótt góðar umræður. Meðal umræðuefna var hvernig hægt er að bæta verklag í kringum innritun í leikskóla, bæði hvað varðar móttöku umsókna og úthlutunina sjálfa. Þátttakendur notuðust við hugmyndafræði hönnunarhugsunar (e. design thinking) til að takast á við áskoranir vinnustofunnar og kynntu lausnir sem verða nýttar í áframhaldandi vinnu á nýju ári.

Vinnustofur með hagsmunaaðilum og notendum eru liður í vinnu teymis sem hefur unnið frá því í haust að því að kortleggja og greina upplifun forsjáraðila og starfsfólks leikskóla. Sama teymi er jafnframt byrjað að prófa frumútgáfu nýrrar stafrænnar lausnar sem stefnt er á að þróa áfram á næstu mánuðum. Um er að ræða samstarfsverkefni milli skóla- og frístundasviðs og þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar.