Mikill áhugi fyrir uppbyggingu

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Bæta þurfti við stólum og margir stóðu á kynningarfundi um uppbyggingaráform fyrirtækja, ríkis og Reykjavíkurborgar sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun með borgarstjóra og formönnum borgarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs. 

Annar kynningarfundur verður í Ráðhúsinu á morgun kl. 17:00 og eru allir velkomnir. Sýning um uppbyggingu í Reykjavík var opnuð í tengslum við fundinn í morgun og hangir hún uppi til 7. október.

Í kynningum á fundinum var einkum varpað ljósi á þau uppbyggingaráform sem lengst eru komin. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, upplýsti meðal annars í sinni kynningu að í gær hefði verið gengið frá greiðslum fyrir lóðasölu í Austurhöfn – Hörpureit fyrir 1,8 milljarð króna. Þar er um að ræða viðskipti milli Auro Investment og Situsar. Gera má ráð fyrir að framkvæmdir við fyrirhugaða hótelbyggingu á lóðinni geti hafist um mitt næsta ár og að mögulegri opnun nýs hótels verði um mitt ár 2016. Dagur fór einnig yfir önnur þekkt áform um hótel og gististaði og dró saman að í pípunum eru hátt í ellefu hundruð gistiherbergi, sem er nálægt þeirri þörf sem talin er vera.

Dagur dró einnig saman áætlanir um íbúðarhúsnæði. Hann sagði ánægjulegt að það stefndi í að mætt yrði þeirri þörf sem er fyrir íbúðir en í ár og á því næsta er búist við að um 900 nýjar íbúðir verði teknar í notkun.  Reykjavíkurborg legði áherslu á góða samvinnu um öflug uppbyggingaráform. Hann fór í kynningu sinni yfir fyrirliggjandi upplýsingar um íbúðahúsnæði en framkvæmdir eru ýmist hafnar eða að hefjast á fjölmörgum stöðum, auk margra verkefna sem eru í deiliskipulagsferli.

Páll Hjaltason formaður umhverfis- og skipulagsráðs fór yfir áherslur í aðalskipulagi og það ferli sem í gangi er. Mikilvægt er fyrir uppbyggingu að hafa víðtæka sátt um aðalskipulag. Hrólfur Jónsson sagði frá hinni nýju skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en hún hefur staðið að upplýsingaöflun og uppsetningu sýningarinnar sem nú hangir upp í Ráðhúsinu. Ellý Katrín Guðmundsdóttir borgarritari stýrði fundinum.

Að fundi loknum stöldruðu margir við, skoðuðu sýninguna og ræddu við frummælendur og starfsmenn.

Nánari upplýsingar

•  Kynningarglærur formanns borgarráðs (frá kynningarfundinum 3. október (sem pdf skjal 8,3 Mb)).

Vídeómynd af uppbyggingarreitum.  

Yfirlitsmynd af uppbyggingarsvæðum (pdf skrá 6,4 Mb).

Aðalskipulag – www.adalskipulag.is

 

Svipmyndir frá sýningunni.