Mikil samstaða meðal fyrirtækja um aðgerðir í loftslagsmálum

Stjórnsýsla Umhverfi

""
Skrifað var undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum í Höfða í dag. Þátttaka var framar öllum vonum en alls skuldbundu 103 fyrirtæki og stofnanir sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Auk þess verður árangur mældur og upplýsingum um stöðu mála miðlað reglulega. 
Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til þessa samstarfs og markar undirskriftin formlegt upphaf verkefnisins.  Það er hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Þátttakendum verður boðin fræðsla um loftslagsmál, bæði hvernig nálgast á viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annara fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri. Aðildarfyrirtækjum Festu, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og 300 stærstu fyrirtækjum á Íslandi var boðin þátttaka í verkefninu.

Víðtæk áhrif

Fyrirtækin 103 sem skrifuðu undir eru af ýmsum toga, stór og lítil fyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, fyrirtæki í iðnaði og þjónustu, háskólar o.s.frv. og sum þeirra menga meira en önnur. Samanlagður starfsmannafjöldi fyrirtækjanna er rúmlega 43 þúsund og því til viðbótar mætti telja rúmlega 30 þúsund nemendur í þeim skólum sem tengjast menntastofnunum sem taka þátt.  Þjónusta þessara fyrirtækja og stofnana tengist öllum landsmönnum með einum eða öðrum hætti.
 
Auk þess að leiða verkefnið mun Reykjavíkurborg einnig taka þátt í aðgerðum sem draga úr losun. „Stefna Reykjavíkurborgar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35% fyrir árið 2020. Stefnan var fyrst sett fram árið 2009 og er nú hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Einnig er unnið að stefnumörkun borgarinnar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigins reksturs borgarinnar“, segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Reykjavíkurborg mun sannarlega leggja sitt af mörkum í þessu samstarfi, en við munum einnig geta lært margt af samstarfinu við fyrirtækin“.

Rekstur fyrirtækja í góðri sátt við samfélagið

Í byrjun desember næstkomandi verður 21. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í París og þar verður Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga (UNFCCC) samþykktur, en markmið hans er að sporna við hnattrænni hlýnun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum“, segir meðal annars í yfirlýsingunni sem undirrituð var í dag í Höfða. „Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra“.
 
Ketill Berg Magnússon framkvæmdastjóri Festu segir að mjög margir stjórnendur fyrirtækja tengi umhverfismál við rekstrarafkomu fyrirtækja sinna til lengri tíma. „Þeir eru búnir að átta sig á að rekstur fyrirtækja þarf að vera í góðri sátt við samfélagið sem þau starfa í“, segir Ketill og hann bendir einnig á að fyrirtæki um allan heim hafi í vaxandi mæli tekið skýra afstöðu í umhverfismálum og sé nærtækt að nefna áskorun fyrirtækja frá 130 löndum þar sem kallað er eftir metnaðarfullum markmiðum á fyrirhugaðri loftslagsráðstefnu. Mikilvægt er að borgir og fyrirtæki sýni frumkvæði.
 

Nánari upplýsingar:

Nánari upplýsingar – texti yfirlýsingar í heild, listi yfir þátttakendur o.fl. – er að finna á vef Reykjavíkurborgar og vef Festu.