Mikil ánægja meðal foreldra með leikskólana

Skóli og frístund

""

Ný könnun meðal foreldra leikskólabarna í Reykjavík sýnir mikla og almenna ánægju með leikskólastarfið.

93,8% þeirra sem svöruðu foreldrakönnuninni eru mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að þeir séu í heildina litið ánægðir með leikskóla barnsins síns.

Könnunin sýndi að almennt ríkti ánægja og jákvæðni í garð leikskólanna í borginni og er það í fullu samræmi við fyrri foreldrakannanir. Þannig finnst ríflega 94% foreldra leikskólabarna að það ríki notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft í leikskólanum og tæp 93% finnst andinn í skólanum einkennast af jákvæðni.

96% foreldra eru mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að barninu þeirra líði vel í leikskólastarfinu en 2,8% svara hvorki né. Heilt yfir eru foreldrar sammála því að barnið taki framförum, aðlagist vel og eigi vini. Einnig að starfsfólkið þekki þarfir barnsins, vinni að því að efla sjálfstraust þess og eigi í góðum samskiptum við barnið.

Könnunin var gerð í mars-maí 2019 og send til 4.583 foreldra sem eiga barn í borgarreknum leikskólum, sjálfstætt starfandi leikskólum og börn í 5 ára deildum Landakotsskóla og Skóla Ísaks Jónssonar. Svarhlutfallið var 68%.

Sjá niðurstöður könnunarinnar.