Miðborgin í myndum – fyrir og eftir framkvæmdir

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Út er komið blaðið Miðborgin – fyrir og eftir, sem er sérútgáfa af blaðinu Borgarsýn, sem umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar gefur út.

Í dag erum við að sjá mesta uppbyggingarskeið í sögu miðborgarinnar og í blaðinu eru gefin sýnishorn af stærri og smærri breytingum sem hafa átt sér stað í miðborginni á síðustu árum.

Í blaðinu sést að miðborg Reykjavíkur er að taka algjörum stakkaskiptum en þar hefur verið gríðarleg uppbygging sem hófst fyrir um níu árum en hefur síðan farið fram af fullum þunga og talsverðu raski á allra síðustu árum. Enn er verið að framkvæma á mörgum reitum en á næstu árum mun sjá fyrir endann á þessum miklu framkvæmdum.

Birtar eru ljósmyndir af fjölmörgum reitum þar sem framkvæmdir hafa farið fram og sýna staðina fyrir og eftir breytingar. Í blaðinu eru enn fremur ýmsar fróðlegar staðreyndir um aðkomu borgarinnar að því að styrkja og fegra Miðborgina.

Þar kemur t.d. fram að gangandi og hjólandi vegfarendum á Laugavegi og Skólavörðustíg fjölgaði m 38% yfir sumartímann , á milli áranna 2013 og 2017, að 80% Reykvíkinga telja að göngugötur í miðborginni hafi jákvæð áhrif á mannlífið og að við Laugaveg eru samtals 742 bílastæði í bílastæðahúsum.

Reykjavíkurborg hefur varið 2,7 milljörðum króna til endurhönnunar gatna og torga í miðborginni árunum 2007 til 2017. Munar þar mest um framkvæmdir við Hverfisgötu, Hafnarstræti, Pósthússtræti og Vegamótastíg en þar hefur verið skipt um lagnir, gangstéttir, lýsingu og malbik.

Þá kemur fram í blaðinu að við Laugaveg, Hverfisgötu og Skólavörðustíg eru rúmlega 800 íbúðir í dag. Á svæðinu eru yfir 300 íbúðir í byggingu og mun þeim því fjölga um hátt í 40% á næstunni.  Í Kvosinni eru 60 íbúðir en þar mun íbúðafjöldinn þrefaldast á næstu misserum.

Hægt er að nálgast blaðið í Ráðhúsi Reykjavíkur, í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni og fleiri stöðum.

Miðborgin - fyrir og eftir