Metfjöldi umsókna um menningarstyrki hjá Reykjavíkurborg

Menning og listir Mannlíf

""

Alls bárust 251 styrkumsókn um verkefni á sviði menningarmála fyrir árið 2020 sem veittir eru úr borgarsjóði Reykjavíkur.

Auglýst var eftir umsóknum í haust og er þetta mesti fjöldi styrkumsókna sem borist hafa til menningarverkefna hjá Reykjavíkurborg frá upphafi.

Fimm manna faghópur skipaður fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands fer nú yfir umsóknirnar og gerir að lokum tillögu til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs um hvaða umsóknir hljóti styrk, en ráðið tekur endanlega ákvörðun um úthlutunina. Stefnt er að því að svara öllum umsækjendum um áramót en styrkirnir eru greiddir út í mars á næsta ári.

Fjölbreytt menningarverkefni af öllum stærðargráðum hafa hlotið styrk úr borgarsjóði á undanförnum árum og hlutu 75 verkefni styrk á árinu í ár. Meðal verkefna sem hlotið hafa styrk á undanförnum misserum má nefna leiksýninguna Club Romantica sem hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikrit ársins árið 2019, umhverfislistaverkasýningin Hjólið I og II á vegum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, barnamenningarhátíðin Kátt á Klambra, Óperudagar í Reykjavík, leiklistarhátíðin Lókal, Design Talks á Hönnunarmars, Reykjavík Metal Fest og tónlistarnámskeiðið Snælda  á vegum Unnsteins Manuels og Loga Pedro Stefánssona.

Nýlega samþykkti menningar-, íþrótta- og tómstundaráð útnefningu borgarhátíða Reykjavíkur 2020-2022. Þær eru Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves, RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, Myrkir músíkdagar og Reykjavík Dance Festival.