Menntastefna Reykjavíkur kynnt á alþjóðlegri ráðstefnu í Kanada

Skóli og frístund

""

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, kynnir nýja menntastefnu Reykjavíkurborgar í sérstakri málstofu um menntamál á Íslandi sem haldin verður í dag á alþjóðlegu menntaráðstefnunni uLead 2018 í Banff í Kanada.

Mótun menntastefnu Reykjavíkur til 2030 hefur staðið yfir í hálft annað ár en þúsundir aðila í skólasamfélaginu í Reykjavík hafa þar lagt hönd á plóg við að leggja meginlínur um framtíðaráherslur í menntamálum borgarinnar á komandi árum. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, mun kynna menntastefnuna í sérstakri málstofu um menntamál á Íslandi sem haldin verður þriðjudaginn 17. apríl á alþjóðlegu menntaráðstefnunni uLead 2018 í Banff í Kanada þessa viku.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tekur þátt í málstofunni auk Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara, og Jóns Torfa Jónasonar, fyrrverandi prófessors Háskóla Íslands. Vakið hefur athygli hve stefnan var unnin í víðtæku samráði við aðila í skólasamfélaginu í borginni; kennara, skólastjórnendur, leikskólabörn, nemendur, foreldra, innlenda og erlenda ráðgjafa, fræðimenn í háskólasamfélaginu, fulltrúa stjórnmálaflokka og almennings en þúsundir borgarbúa léðu verkefninu lið með ábendingum og hugmyndum í gegnum vefinn Betri Reykjavík.

Alþjóðlega ráðstefnan uLead er nú haldin í fimmta sinn í bænum Banff í Albertafylki en ráðstefnan fjallar um forystu í menntamálum og nýjustu stefnur og strauma.  Það eru kennarasamtökin í Albertafylki (Alberta Teacher Association) sem standa að ráðstefnunni og sækja hana hátt í annað þúsund gestir frá öllum heimshornum.  Stór hópur skólastjóra og kennara frá Reykjavík og úr öðrum sveitarfélögum taka þátt í ráðstefnunni í ár.